Var ekki að bíða eftir næstu plágu

Stefán S. Stefánsson, skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar.
Stefán S. Stefánsson, skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar. Eggert Jóhannesson

„Í faraldrinum hafa skólar áttað sig á því að þeir þurfa að bjóða upp á fjölbreyttari lausnir í námi og þá kom sér vel að þetta kerfi var tilbúið til notkunar. Ekki svo að skilja að ég hafi verið að bíða eftir næstu plágu, það hittist bara svona á. Svona eru tilviljanirnar skrýtnar en vonandi koma sem flestir til með að geta nýtt sér þessa lausn.“

Þetta segir Stefán S. Stefánsson, skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar, sem hefur þróað námstorg fyrir aukagreinar tónlistarkennslu á netinu sem íslenskir skólar og nemendur færa sér nú í auknum mæli í nyt. Stefán talar ekki um framtíðina í þessu sambandi, heldur nútíðina.

Námsefni er unnið af þaulreyndum tónlistarkennurum og hefur verið prófað í þó nokkur ár. Skólar og einstaklingar ganga inn í sérútbúna áfanga fyrir aukagreinar eins og tónheyrn, tónfræði og tónlistarsögu.

Ásóknin orðin býsna mikil

Stefán kveðst hafa þróað kerfið við sinn skóla, bæði námsefnið og uppsetninguna, með góðum árangri. „Það er meira en að segja það að setja upp kerfi af þessu tagi, þannig að þegar þetta var komið í gagnið hjá okkur fór ég að velta fyrir mér hvort ekki væri upplagt fyrir aðra að nýta sér kerfið líka. Ég hef ekki verið að auglýsa þetta en látið aðra tónlistarskóla vita og ásóknin er orðin býsna mikil enda hefur verið vöntun á þessu efni í tónlistarskólakerfinu. Ferlið er býsna tímafrekt og flókið, þannig að í stað þess að láta hvern og einn skóla finna upp hjólið fannst mér upplagt að deila þessu með öðrum,“ segir Stefán og bætir við að áskriftargjaldið sé hóflegt.

Þannig hefur kerfið þegar stuðlað að aukinni samvinnu milli tónlistarskólanna í landinu en meðal þeirra sem hafa tekið það í sína þjónustu eru Menntaskóli í tónlist, Listaháskóli Íslands, Tónlistarskóli FÍH, Skólahljómsveit Grafarvogs og Domus Vox söngskóli.

Hér er um brautryðjandastarf að ræða en Stefán veit ekki til þess að það tíðkist í öðrum löndum að margir skólar nýti sér eitt og sama kerfið.

Nánar er rætt við Stefán um kerfið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert