WHO mælir gegn remdesivir

Stór hluti Covid-sjúklinga á Landspítalanum hefur fengið lyfið remdesivir. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin …
Stór hluti Covid-sjúklinga á Landspítalanum hefur fengið lyfið remdesivir. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur nú mælt gegn notkun þess. Lyfið þyki ekki hafa áhrif á bataferli sjúklinga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur mælt gegn notkun lyfsins remdesivir í meðferð Covid-19-sjúklinga. Lyfið hefur töluvert verið notað hér á landi. Greint var frá þessu í hádegisfréttum RÚV.

Í tilkynningu frá stofnuninni, sem send var út í gær, segir að engar vísbendingar séu um að lyfið bæti bataferli kórónuveirusjúklinga. Í tilkynningunni segir að niðurstöður bendi til að lyfið hafi engin áhrif á lífslíkur, þörf á öndunarvél, tíma bataferlis eða aðra þætti þess. Niðurstöðurnar byggjast á tilraun sem gerð var á 7.000 sjúklingum, en þess er þó getið að þörf sé á frekari rannsóknum.

Í samtali við RÚV segir Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir og prófessor í smitsjúkdómalækningum, að lyfið hafi gefið góða raun hér á landi en læknar muni leggjast yfir ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Remdesivir er breiðvirkandi lyf sem notað hefur verið gegn veirusýkingum um hríð. Magnús segir allstóran hluta þeirra sjúklinga sem lagst hafa inn á sjúkrahús vegna veirunnar hafa fengið lyfið. Þá fékk Donald Trump lyfið einnig þegar hann veiktist af kórónuveirunni í síðasta mánuði.

Magnús segir þó ekkert benda til þess að lyfið geti stefnt sjúklingum í hættu. „Ég held að röksemdir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar lúti frekar að kostnaðinum sem fylgir kaupum á þessum lyfjum og þeir telji að hugsanlega sé hægt að nýta fjármagnið á skynsamlegri hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert