Á sumarskóm í snjó og kulda

Sveinn, Beth og ættmóðirin Maria eru þrjár kynslóðir Filippseyinga, en …
Sveinn, Beth og ættmóðirin Maria eru þrjár kynslóðir Filippseyinga, en konurnar komu hingað fyrir um þrjátíu árum og eru giftar íslenskum mönnum. Þær hafa aðlagast vel samfélaginu; kuldanum og fámenninu. mbl.is/Ásdís

Það var boðið upp á kaffi og vínarbrauð einn fallegan sunnudagseftirmiðdag heima hjá Bethsaidu Cisneros Arnarson, oftast kölluð Beth. Þar var einnig stödd föðursystir hennar, Maria Evangeline Bjarnason, sem hún lítur á sem aðra móður sína. Sonur Beth, Sveinn Arnar Hafsteinsson, er einnig mættur, fulltrúi ungu kynslóðarinnar og sá eini sem fæddur er á Íslandi, en hann á íslenskan föður.

Konurnar tvær fluttu til Íslands fyrir um þrjátíu árum; fyrst Maria og nokkrum árum síðar Beth. Báðar giftust þær íslenskum mönnum og hafa unað hag sínum vel á Íslandi alla tíð síðan. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvað varð til þess að þær rifu sig upp frá lífinu á Filippseyjum og fluttu nánast eins langt og hægt var frá heimalandinu, alla leið til norður til Akureyrar.

Bréfaskriftir milli heimsálfa

„Ég kom til Íslands árið 1990 og hef því verið hér í þrjátíu ár. Ég hafði kynnst manni, en frænka mín og vinkona sem bjuggu hér komu mér í samband við hann. Hann var bóndi og átti engin börn,“ segir hún en maðurinn sem um ræðir heitir Sveinn Bjarnason, bóndi á Brúarlandi í Eyjafirði.

„Við byrjuðum því bréfaskriftir á milli Íslands og Filippseyja. Hann kunni ekki ensku en maður vinkonu minnar þýddi fyrir hann bréfin frá mér,“ segir Maria og segir að á þeim tíma hafi ekki verið hægt að hafa samband á annan hátt en með gamaldags sendibréfum.

„Ég var þá 39 ára gagnfræðaskólakennari á Filippseyjum en hann 59 ára. Við skrifuðumst á í sex mánuði. Ég hélt þessu fyrst leyndu. En svo talaði ég við stjórnendur skólans og sagði þeim að ég væri að fara til Íslands,“ segir hún en Sveinn hafði þá boðið henni að koma.

Varstu búin að ákveða fyrirfram að giftast honum?

„Ég hugsaði bara, hver eru mín örlög? Ég ákvað að treysta bara á örlögin. Ég hitti hann ekki strax því ég var fyrst hjá vinkonu minni. En svo hitti ég hann og við kynntumst svo smám saman. Ég sá fljótt að þetta var góður maður og ég treysti honum. Mér leist ágætlega á hann. Hann var dæmigerður bóndi og svolítið sveitalegur,“ segir hún og brosir.

Beth og eiginmaðurinn Hafsteinn voru hamingjusöm á brúðkaupsdaginn í aprílbyrjun …
Beth og eiginmaðurinn Hafsteinn voru hamingjusöm á brúðkaupsdaginn í aprílbyrjun árið 1993. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Hann hafði sagt fólki að hann ætti vinkonu á Filippseyjum sem ætlaði að koma og heimsækja sig og það trúði honum enginn. Hann sendi mér svo farmiða. En þremur vikum áður en ég fór til Íslands dó bróðir minn, en hann er faðir Beth,“ segir hún en þá var Beth ekki orðin tvítug.

Töluðu saman með hjálp orðabókar

Hvernig var það fyrir þig að koma frá Filippseyjum og setjast að uppi í sveit?

„Það var rosaleg breyting og ég þurfti að venjast en úr sveitinni er útsýni og mikil náttúra. Ég var svo hrifin af fjöllum með snjó og fyrst þegar ég kom sá ég bara kindur og bóndabæi. Það var ekki mjög kalt þegar ég kom, enda sumar. Ég hjálpaði til á bóndabænum en fékk svo strax vinnu í súkkulaðiverksmiðjunni Lindu, en hætti þegar lokað var hjá þeim. Það er erfitt fyrir mig að vera kennari hér þar sem tungumálið var erfitt og ég treysti mér ekki til þess.“

Hvernig gátuð þið talað saman í byrjun, þú og Sveinn?

„Ég var með orðabók. Og presturinn sem gifti okkur, faðir Róbert, prentaði út lista af orðum sem ég gat notað. Hann hjálpaði mér. En svo horfði ég mikið á sjónvarpið og hlustaði og las textann og þannig lærði ég mikið. Svo lærði ég íslensku bara af Íslendingum en ég var ekki feimin við að tala og þetta kom smátt og smátt,“ segir Maria sem nú er hætt að vinna og komin á eftirlaun.

Lenti í snarvitlausu veðri

Víkur þá sögunni að Beth. Mariu langaði mikið að hjálpa frænku sinni og þremur árum eftir komuna fékk hún Beth til Íslands, árið 1993.

„Ég fór til Reykjavíkur og fór í Útlendingastofnun til að spyrjast fyrir um hvernig ég gæti fengið frænku mína til landsins til að hjálpa til við kartöfluræktina. En það endaði með að hún kom hingað á þriggja mánaða ferðamannaáritun,“ segir Maria.

Maria hefur nánast verið eins og önnur móðir Beth, en móðir Beth hafði sent Mariu bréf og beðið hana að hugsa vel um ungu konuna og ganga henni í móðurstað.

Beth tekur til máls.

„Þau keyptu fyrir mig farmiðann og ég ákvað að koma og sjá til hvernig myndi ganga og ætlaði að athuga hvort það væri hægt að framlengja dvalarleyfið. Svo var það ein vinkona Mariu sem átti vinkonu sem átti einhleypan bróður sem langaði svo mikið að kynnast asískri konu, en hann var búinn að sjá mynd af mér,“ segir hún og hlær.

„Þegar ég kom var snarvitlaust veður, þann tólfta janúar,“ segir hún og skellir upp úr.
„Ég lenti í Keflavík alein. Þetta var í fyrsta skipti sem ég fór í flugvél, ég hafði aldrei farið til útlanda og aldrei í flugvél. Alveg satt! Þetta var rosalegt ævintýri. Í Keflavík skipti ég um flugvél en það var flogið beint frá Keflavík til Akureyrar í pínulítilli vél í vondu veðri,“ segir hún og segir að snjór hafi verið yfir öllu.

„Ég hafði aldrei áður séð snjó og skórnir sem ég var í voru ekki gerðir fyrir snjó. Ég steig út úr flugvélinni og flaug beint á rassinn. Ég var í sumarjakka og mér var ískalt og ég var svo lítil, ekki nema 45 kíló. Það var einhver maður sem hjálpaði mér því ég kunni ekki að labba í snjónum,“ segir hún og hlær að minningunni.

„Og svo var rosalega kalt. Ég klæddi mig í fernar buxur, mér var svo kalt,“ segir Beth sem ætlaði í upphafi bara að koma í heimsókn og hjálpa Mariu á bóndabænum og sjá svo til með framhaldið.

Leist strax vel á hann

Hvenær hittir þú svo þennan einhleypa mann sem frænka þín var búin að plotta að þú myndir hitta?

Maria og Sveinn stuttu eftir brúðkaupsdaginn fyrir þrjátíu árum.
Maria og Sveinn stuttu eftir brúðkaupsdaginn fyrir þrjátíu árum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Beth skellihlær. 

„Það var svona tveimur vikum seinna. Ég var alveg skíthrædd. Og hann líka. Hann kom í heimsókn. Hann hafði hringt á undan sér og boðað komu sína,“ segir hún en maðurinn reyndist vera Hafsteinn Arnarson, þá 29 ára kranamaður í slippnum.

Og hvernig leist þér á hann þegar hann kom í heimsókn?

„Heyrðu, mér leist strax vel á hann,“ segir hún og hlær.
„Ég varð strax hrifin af honum. Og hann af mér,“ segir hún.

Alveg himinglöð

Beth og Hafsteinn gátu talað saman á ensku og náðu að kynnast nokkuð, en þau giftu sig í kaþólsku kirkjunni.

„Ég flutti svo inn til hans eftir brúðkaupið,“ segir hún.

Hvað fannst fjölskyldu þinni á Filippseyjum um að þú værir flutt til Íslands og gift íslenskum manni?

„Alveg himinglöð. Það var alltaf mín ósk frá því að ég var lítil að giftast útlendingi. Ég hafði oft skrifað það í dagbækur og líka þegar ég var beðin um að segja hvers maður óskaði fyrir framtíðina. Þá skrifaði ég alltaf; að giftast útlendingi. Alveg sama hvaðan,“ segir hún og skellihlær.

Gaman að eiga annan bakgrunn

Sveinn Arnar, hvernig finnst þér að vera bæði íslenskur og filippseyskur?

„Ég pæli mjög mikið í því, sérstaklega eftir því sem ég eldist. Ég kann alltaf betur og betur að meta það, að eiga annan og mjög ólíkan bakgrunn. Mér finnst það ótrúlega skemmtilegt,“ segir Sveinn sem fór fyrst til Filippseyja 2004 og oft síðan.

Hafsteinn og Beth eru hér með sonunum Hermanni Elí og …
Hafsteinn og Beth eru hér með sonunum Hermanni Elí og Sveini Arnari, en myndin er tekin í ferðalagi til Filippseyja fyrir allnokkru. Drengirnir eru nú komnir um og yfir tvítugt. Ljósmynd/ Úr einkasafni

„Tilfinningin að fara þangað er eins og engin önnur. Í hvert skipti sem ég fer upplifi ég alltaf eitthvað nýtt. Það var alltaf hápunkturinn að fara þangað, en við dvöldum yfirleitt svona tvo mánuði þar í senn,“ segir Sveinn, en hann segist ekki tala bisaya en skilja það vel.

„Ég væri til í að fara þangað og búa í einhvern tíma,“ segir hann og bætir við að hann hafi lært ýmislegt við að hlusta á mömmu og ömmu segja blaðamanni frá lífi sínu. Hann hafði gaman af því að heyra þessar sögur.

„Ég vissi ekki helminginn!“

Maria, Sveinn og Beth eru ánægð með lífið á Akureyri.
Maria, Sveinn og Beth eru ánægð með lífið á Akureyri. mbl.is/Ásdís

Ítarlegt viðtal er við fjölskylduna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Hægt er að lesa það í heild sinni hér á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert