Allir stjórnmálaflokkar hagnast

Stærstur hluti tekna stjórnmálaflokka kemur úr ríkissjóði.
Stærstur hluti tekna stjórnmálaflokka kemur úr ríkissjóði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi, og hafa þegar skilað ársreikningi, skiluðu hagnaði á síðasta ári.

Ríkisendurskoðun hefur nú farið yfir ársreikninga þeirra flokka sem skiluðu ársreikningi fyrir lögbundinn frest, en það gerðu allir flokkar nema Píratar og Flokkur fólksins.

Mestur var hagnaður Samfylkingarinnar, 71 milljón króna, en hagnaður Sjálfstæðisflokks og Miðflokks litlu minni. Minnstur var hagnaður Viðreisnar, 24 milljónir króna.

Stærstur hluti tekna stjórnmálaflokka kemur úr ríkissjóði, en á fjárlögum ársins 2019 var 740 milljónum króna ráðstafað til stjórnmálaflokka. Fjármununum er skipt milli flokkanna í hlutfalli við atkvæðamagn í síðustu alþingiskosningum. Fær Sjálfstæðisflokkurinn því mest, rúmar 178 milljónir króna, en minnst fær Flokkur fólksins, rúmar 57 milljónir.

Framlög til stjórnmálaflokka voru aukin um 127% — þ.e. rúmlega tvöfölduð — milli áranna 2017 og 2018, eftir að allir þingflokkar, nema Píratar og Flokkur fólksins samþykktu tillögu þess efnis. Voru flokkarnir þá margir hverjir illa staddir eftir tvennar kosningar á einu ári með tilheyrandi dýrri kosningabaráttu. 

Hagur allra flokka vænkast milli áranna 2018 og 2019 enda voru sveitarstjórnarkosningar haldnar árið 2018.

Eignastaða flokkanna er æði misjöfn. Mestar eru eignir Sjálfstæðisflokksins, 847 milljónir króna, en þar munar mestu um fasteignir að verðmæti 674 milljóna króna. Flokkurinn skuldar einnig mest allra flokka, 452 milljónir króna.

Samfylkingin á næstmest, 231 milljón króna en skuldar 76 milljónir.

Framsóknarflokkurinn á 206 milljónir króna en skuldar 80 milljónir.

Miðflokkurinn á 82 milljónir króna og skuldar aðeins 850 þúsund krónur.

Vinstri-græn eiga 63,8 milljónir króna en skulda 9,3 milljónir.

Viðreisn á 21,8 milljónir króna en skuldar 4,2 milljónir.

mbl.is

Bloggað um fréttina