Eldri en bæði mbl og google

Torfi H. Leifsson er maðurinn á bakvið hlaup.is, eina elstu …
Torfi H. Leifsson er maðurinn á bakvið hlaup.is, eina elstu vefsíðu landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Næstum aldarfjórðungur er liðinn síðan Torfi H. Leifsson ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og stofna vefsíðuna hlaup.is. Tilgangurinn var að sinna áhugamálinu sínu, hlaupunum, en um leið endurmennta sig með því að læra á netið og hina ýmsu króka þess og kima. Stutt er síðan vefurinn tók miklum breytingum, enda slíkt orðið tímabært með þeim tækninýjungum sem hafa orðið á undanförnum árum. 

Torfa, sem er verkfræðingur, fannst eins og svo mörgum öðrum internetið vera forvitnileg nýjung á sínum tíma sem þyrfti að skoða betur. Þetta var í árdaga þess árið 1996 og hvorki mbl.is né google.com höfðu verið stofnaðir. Það gerðist ekki fyrr en tveimur árum síðar. Hlaup.is er því ein elsta vefsíða landsins. Torfi bendir á að margir aðrir vefir hafi verið komnir fram en eflaust hafi hann verið með þeim fyrstu til að halda úti markvissri síðu hér á landi. „Mig langaði að kynnast þessum nýja heimi sem vefurinn var á þessum tíma. Á sama tíma er ég hlaupari. Vandamálið var að úrslitin voru ekki að birtast neins staðar af neinu viti,“ greinir hann frá. 

Úrslit almenningshlaupa voru hætt að birtast í dagblöðunum og helst voru þau prentuð út og hengd upp að loknum mótum. Fyrir vikið varð meira mál að nálgast úrslitin. Hann ákvað að prófa sig áfram í að taka öll úrslitin saman og birta þau á hlaup.is ásamt hlaupadagskrá ársins. Þannig gat hann sinnt áhugamálinu og veitt hlaupasamfélaginu mikilvæga þjónustu, um leið og hann lærði á þessa nýju tækni.

Þjónustan á hlaup.is:

 • Hlaupadagskráin á Íslandi og erlendis
 • Úrslit í öllum almenningshlaupum á Íslandi (undanfarin 30 ár) og einnig tími Íslendinga í erlendum hlaupum (nokkra tugi ára aftur í tímann)
 • Listi yfir alla hlaupahópa
 • Afrekalisti ársins og fyrri ára í 5 km, 10 km, 21,1 km og 42,2 km
 • Skráningar í hlaup
 • Fréttir
 • Pistlar og ferðasögur úr hlaupum
 • Viðtöl bæði á textaformi og sem vídeó (HlaupTV)
 • Myndir úr hlaupum
 • Einkunnagjöf hlaupa
 • Fróðleikur fyrir hlaupara og hlauphaldara
 • Æfingar hlaupara í æfingadagbók
Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir nokkrum árum.
Hlauparar í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir nokkrum árum. mbl.is/Árni Sæberg

Kostnaðarsamt en óumflýjanlegt

Vinnan við að setja upp endurbættan vef hefur verið mikil, enda er stórt verkefni að hanna og búa til nýjan vef ásamt því að flytja gögn frá þeim gamla yfir á nýja. Því er ekki lokið. Torfi segir aðgerðina mjög kostnaðarsama en óumflýjanlega. Nú til dags nota flestir símana sína til að fara á netið og gamli vefurinn var ekki hannaður fyrir slíkt. Að auki er boðið upp á alveg nýja möguleika á nýja hlaup.is, með því að gera hlaupurum kleift að safna saman öllum sínum upplýsingum á „mínum síðum“. Spurður nánar út í kostnaðinn við nýja vefinn nefnir hann töluna 20 til 30 milljónir króna sem hann fjármagnar með lánum, tekjum af auglýsingum, áskriftum frá hlaupurum, ásamt fjármagni úr eigin vasa.

Vegna þessara kostnaðarsömu breytinga hefur hann óskað eftir aðstoð bæði frá fyrirtækjum og hlaupasamfélaginu til hjálpa sér að standa straum verkinu. Aðspurður segir hann viðbrögðin þó minni en hann hafði vonast eftir frá hlaupurum. Nokkrir skokkhópar hafa samt sýnt stuðning í verki og lagt í púkkið. Nokkur fyrirtæki hafa sömuleiðis tekið vel í beiðni hans en „það væri gaman að fá fleiri með í liðið,“ segir Torfi. „Ég hef verið að leita eftir þessum almenna hlaupara, að fá hann í lið með mér og skrá sig fyrir kannski 700-1.000 krónum á mánuði til að halda þessu gangandi. Það hafa einhverjir tugir skráð sig en kannski ekki eins mikið og ég vonaði,“ bætir hann við. 

Torfi er hann var að mynda hlaupara á Henglinum.
Torfi er hann var að mynda hlaupara á Henglinum. Ljósmynd/Aðsend

Allt að níu þúsund manns á viku

Hann vonast þó til að hlutirnir batni um leið og virknin eykst hjá hlaupurum, enda hefur kórónuveirufaraldurinn orðið til þess að fjölda almenningshlaupa hefur verið aflýst. „Ég er þakklátur skokkhópunum og þeim hlaupurum sem hafa skráð sig fyrir mánaðarlegri greiðslu en myndi mjög gjarnan vilja sjá umtalsvert fleiri.“

Vegna óvenjulegra aðstæðna í tengslum við veiruna eru heimsóknir á síðuna ekki jafn margar og venjulega á þessum tíma ársins. Í venjulegu árferði er fjöldi mismunandi notenda annars á bilinu 3.500 upp í 7 þúsund á viku. Þegar mest er um að vera á sumrin getur fjöldinn farið upp í átta til níu þúsund, samkvæmt mælingum Modernus. Torfi er fullviss um að umferðin um vefinn aukist einnig með nýja útlitinu og símaaðgenginu, sem sé svo mikilvægt í dag, og nýjum möguleikum hlaupara á að finna allar hlaupaupplýsingarnar sínar á einum stað á „mínum síðum“.

Mínar síður:

 • Öll úrslit hlaupara
 • Allar myndir sem teknar hafa verið af hlaupara
 • Allar æfingar hlaupara
 • Allar skráningar hlaupara
 • Allar einkunnir sem hlaupari gefur hverju hlaupi
 • Allar hlaupaleiðir hlaupara
 • Allar greinar sem viðkomandi hlaupara hefur merkt sér
 • Hlaupadagskrá viðkomandi hlaupara

Hlaupanámskeið á Zoom

Undanfarin tíu ár hefur Torfi boðið upp á hlaupanámskeið þar sem hann fer yfir allt sem tengist hlaupaþjálfun en eftir að Covid byrjaði féllu þau eðlilega niður. Núna hefur hann brugðist við ástandinu og ætlar annars vegar að bjóða upp á lifandi námskeið á Teams eða Zoom og hins vegar rafræna útgáfu af námskeiðinu þar sem fólk skráir sig og skoðar hvenær sem því hentar. Fólk sem er að byrja að hlaupa hefur nýtt sér námskeiðin hans í gegnum árin ásamt reyndum hlaupurum sem vilja bæta við þekkinguna.

Fólk úti að hlaupa.
Fólk úti að hlaupa. mbl.is/Golli

Hleypur þangað til hann hrekkur upp af

Sjálfur segist hann alltaf vera að hlaupa, þó svo að hann hafi lítið keppt að undanförnu. Meira púður fer í að vera á hliðarlínunni að taka ljósmyndir og viðtöl sem hann setur svo á vefinn. Annað slagið hleypur hann samt maraþon erlendis. 61 árs að aldri hleypur hann reglulega fjórum til fimm sinnum í viku og gerir styrktaræfingar einu sinni til tvisvar í viku, þannig að árið um kring æfir hann fjórum til sex sinnum í viku, geri aðrir betur.

Er alltaf jafngaman að hlaupa?

„Ég segi það alltaf á námskeiðunum að það sem er mikilvægast í þessu er að gera þetta að lífsstílnum sínum, hluta af lífinu alveg sama þó maður sé ekki alltaf að keppa, maður bara verður einhvern veginn að taka æfingar. Maður setur sér ákveðin markmið í keppni en bara það að æfa hlaup er það skemmtilegasta sem maður gerir. Bónusinn er góð heilsa og það allt saman,“ segir Torfi, sem passar sig samt að fara ekki offari. Skynsemin þarf að vera í fyrirrúmi, svo að hann viti að hann geti hlaupið áfram um ókomin ár.

Ljósmynd/Aðsend

„Skammtímamarkmiðin koma alltaf inn á milli, að taka þátt í einu og einu maraþoni, 10 kílómetra hlaupum og hálfum maraþonum, en langtímamarkmiðin er heilsan og að geta hlaupið þangað til ég nánast hrekk upp af,“ segir þessi frumkvöðull, sem hefur svo sannarlega gert hlaupin að sínum lífsstíl í einu og öllu.

mbl.is