Krúttleikinn tók yfir

Dagrún Matthíasdóttir hefur í nógu að snúast að kenna, vinna …
Dagrún Matthíasdóttir hefur í nógu að snúast að kenna, vinna að myndlist og sjá um þrettán ketti. Hún segir langa biðlista vera eftir þessari tegund. mbl.is/Ásdís

Það er notalegt um að litast í litla sæta húsinu hennar Dagrúnar í miðbæ Akureyrar, en hún býr þar ásamt eiginmanni sínum. Heimasætan er flutt að heiman og býr nú erlendis, en á heimilinu er líf og fjör. Þar búa nefnilega þrettán kettir! Yfir góðum kaffibolla ræðum við um listina en ekki síður um kattaástríðu listakonunnar.

Málverk og gjörningar

Dagrún er Ísfirðingur en endaði á Akureyri og kennir hún nú myndlist í Oddeyrarskóla. Hún hefur rekið gallerí í áraraðir; fyrst Dalí og svo lengi vel Mjólkurbúðina í Gilinu.
Meðfram kennslu sinnir Dagrún eigin listsköpun og tilheyrir hún listahópnum Rösk, hópi fjögurra listakvenna sem vinna að list sinni í vinnustofum í Gilinu.

Dagrún vinnur mikið í málverkinu og segist sækja innblástur í …
Dagrún vinnur mikið í málverkinu og segist sækja innblástur í snjó og náttúru. Ljósmynd/Steinunn Matthíasdóttir

„Ég er í öllum miðlum málverksins og finnst mjög gaman að gera tilraunir. Ég leita mikið í náttúruna og snjóinn en svo reyni ég að ögra sjálfri mér svo ég festist ekki í einu myndefni,“ segir Dagrún.

Svo um daginn opinberaði ég kattakerlinguna í mér í listinni. Ég framdi gjörninginn Læður í Mjólkurbúðinni, en það var kattajóga. Ég fékk til liðs við mig Gerði Ósk Hjaltadóttur athafnakonu og Önnu Gunnarsdóttur textíllistakonu. Við vorum í jóga og ég tók alla kettlingana með mér. Svo tóku þeir yfir með krúttleikanum. Það var kannski minna af jóga og meira af köttum. Við enduðum svo á að stökkva út í gil og dansa berfættar.“

Alltaf verið dýrasjúk

Um allt hús má sjá rólega, loðna og afar sérstaka ketti. Þeir eru með flatt andlit og stór augu og afar krúttlegir, svo ekki sé meira sagt.

Það fer ekki á milli mála að Dagrún er mikil kisukona.

Þrettán kettir af Himalayan Perisan-tegund búa nú á heimili Dagrúnar. …
Þrettán kettir af Himalayan Perisan-tegund búa nú á heimili Dagrúnar. Átta eru þó á leiðinni á ný heimili. Krúttleikinn á heimilinu er að sprengja alla skala. mbl.is/Ásdís

„Núna á ég fimm. Tvö gamalmenni og þrjá ræktunarketti. Svo á bænum núna eru átta kettlingar. Þannig að það fjölgaði upp í þrettán. Ég er að rækta þessa tegund, en ekki markvisst. Það eru þrjú ár síðan ég var síðast með got,“ segir hún en tegundin sem um ræðir er Himalayan Persian. 

„Ég hef alltaf verið dýrasjúk. Ég myndi eiga hund líka ef maðurinn segði ekki stopp,“ segir hún og hlær.

Rólegir litlir búddar

Dagrún segir gríðarlega eftirspurn vera eftir þessari tegund katta.

„Við erum nú þrjár á landinu sem ræktum persa og önnum ekki eftirspurn. Þetta eru í raun okkar gæludýr þannig að það er engin ofurframleiðsla í gangi. Þessir kettlingar sem ég er með núna eru fæddir í júlí, í tveimur gotum. Ég er búin að finna þeim öllum heimili og það er langur biðlisti,“ segir hún og viðurkennir að það sé mikil vinna að sjá um þrettán ketti.

Þessi stillti sér upp og horfði í vélina.
Þessi stillti sér upp og horfði í vélina. mbl.is/Ásdís

 „Þeir éta mikið og svo þarf maður að vera duglegur að skipta um sand. Þetta eru ekki útikettir. Þeir eru svifaseinir og mjög slakir. Þetta eru litlir búddar. Þeir mundu ekki endilega fara af götunni þótt bíll kæmi,“ segir hún og brosir.

„Þessir kettir eru öðlingar, rosalega ljúfir, glaðir og skemmtilegir. Mjög kelnir. Ef það er opið inn í svefnherbergi koma þeir allir upp í. Og þegar það er got er ég eins konar kisuljósmóðir. Svo þarf að baða kettina og blása af og til.“

Vilja þeir láta blása sig?

„Sumir eru hræddir við blásarann en þeir láta sig hafa það.“

Hann var heldur þungur á brún, þessi hvíti hnoðri.
Hann var heldur þungur á brún, þessi hvíti hnoðri. mbl.is/Ásdís

Ítarlegt viðtal er við Dagrúnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert