Reykræstu skip og sinntu 94 sjúkraflutningum

Greiðlega gekk að reykræsta skip við Grandagarð seint í gærkvöldi en vegfarandi hafði samband við Neyðarlínuna eftir að hafa séð ljósan reyk koma frá skipinu.

Að sögn varðstjóra var mikill reykur í skipinu og þegar reykkafarar fóru inn sáu þeir að reykurinn kom frá olíukabyssu. Mikill eldur var í kabyssunni og hafði reykurinn farið um allt skip. Slökktu þeir eldinn og reykræstu en engar skemmdir urðu á skipinu og innanstokksmunum þess.

Alls fór slökkviliðið í sex útköll á dælubíla. Má þar nefna auk skipsins, vatnslega og viðvörunarkerfi sem fóru í gang. Eins sinnti slökkviliðið tveimur umferðarslysum en hvorugt þeirra var alvarlegt.

Alls voru sjúkraflutningarnir 94 síðasta sólarhringinn. Af þeim var 21 forgangsverkefni og 9 sjúkraflutningar vegna Covid-19. Að sögn varðstjóra er sjúkraflutningafólk farið sjá verulegan árangur af sóttvarnaaðgerðum og álagið vegna kórónuveirunnar fer smám saman minnkandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert