Stefnir á grunnbúðir 10. desember

John Snorri Sigurjónsson á toppi K2.
John Snorri Sigurjónsson á toppi K2. Ljósmynd/Kári G. Schram

John Snorri Sigurjónsson á von á því að vera kominn í grunnbúðir K2 um miðjan desember en að hann ásamt tveimur fylgdarmönnum hefji leiðangurinn þaðan í kringum 10. janúar. K2 er eini tindur heims, sem er yfir 8 þúsund metrar að hæð, sem ekki hefur verið klifinn að vetri til. Ef John Snorra tekst ætlunarverkið verður hann sá fyrsti til þess að vinna það þrekvirki. 

K2 er 8.611 metrar að hæð og er annað hæsta fjall heims, næst á eftir Mont Everest sem er 237 metrum hærra. John Snorri varð fyrstur Íslendinga til að klífa tindinn Lhotse í Himalajafjallgarðinum, sem er 8.516 metra hár og fjórða hæsta fjall heims. Hann er einnig eini Íslendingurinn sem hefur klifið K2 og einn fárra í heiminum til þess enda K2 talið eitt erfiðasta fjall heims þegar klifur er annars vegar.

K2 er næsthæsta fjall jarðar og hér trónir það yfir …
K2 er næsthæsta fjall jarðar og hér trónir það yfir umhverfinu.

Með honum í för eru feðgarnir Muhammad Ali Sa­dp­ara og Sajid Ali en Muhammad hefur klifið K4, K5, Nanga Par­bat fimm sinn­um, þar af fyrst­ur til þess að vetr­ar­lagi, Broad Peak sem og K2 árið 2018. Hann kleif Lhot­se, Makalu og Manaslu árið 2019. Son­ur Sa­dp­ara, Sajid Ali kleif K2 í fyrra. Þeir þrír klifra saman fjallið en þetta er mun fámennari hópur en John Snorri var í fyrr á árinu. 

Mbl.is náði tali að John Snorra á flugvellinum í London í dag en hann er á leiðinni til Islamabad. Allur búnaður leiðangursins er kominn í grunnbúðir og þrír starfsmenn verða þar allan tímann. 

John Snorri er fyrr á ferðinni nú heldur en síðasta vetur en þá varð hann að hætta við uppgöngu í febrúar 2020. Þetta er einnig mun minni hópur en þá var með í för. Ákvörðunin um að snúa við var tek­in vegna þess að fimm úr átta manna hópn­um sem John Snorri var hluti af treystu sér ekki til þess að halda áfram.  

Fyrr á ferðinni núna

Að sögn Johns Snorra ákváðu þeir að vera fyrr á ferðinni nú vegna veðurfars á fjallinu. „Við ætlum að reyna að vera tilbúnir um miðjan janúar á fjallinu vegna þess að háloftavindurinn (jet stream - hraður vestanvindur í um 10 km hæð) er heldur hægari á þeim tíma,“ segir John Snorri. 

Ef það er tækifæri til myndum við reyna að komast upp þá en við stefnum á að vera komnir í grunnbúðir um 10. desember. Þá höfum við rúman mánuð til að vinna í fjallinu, leggja línur og annað slíkt áður en lagt er af stað á tindinn, segir John Snorri. 

Ómögulegt er að segja til um hvenær þeir standi á tindi K2, takist þeim ætlunarverkið, á þessari stundu að hans sögn. Það fari allt eftir veðurfarinu í janúar og febrúar. „Í fyrra skiptið fengum við tvisvar þær veðurupplýsingar að það væri 70 stiga frost og vindhraðinn væri 240 km á klukkustund (en það svarar til 67 m/sek.) og ekki fer maður af stað við þær aðstæður,“ segir John Snorri og hlær.

John Snorri Sigurjónsson fjallamaður ætlar að verða fyrsti maðurinn til …
John Snorri Sigurjónsson fjallamaður ætlar að verða fyrsti maðurinn til þess að klífa K2, næst hæsta tind heims, að vetrarlagi. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist vonast til þess að rétt eftir miðjan janúar hægi á þessum háloftavindum og þá ætla þeir að reyna að minnsta kosti einu sinni við tindinn sjálfan. Gert er ráð fyrir að þeir geti verið á fjallinu út febrúar því vistirnar miðast við þrjá mánuði. 

Spurður út í hvort fleiri ætli sér að reyna við K2 þennan veturinn segir John Snorri að hann viti um þrjá aðra hópa, þar á meðal stærsta hóp sem nokkurn tíma hefur reynt við tindinn en í þessum hóp eru 15 serpar og 10 fjallgöngumenn að auki. 

John Snorri segist vera sá eini sem hafi undirbúið verkefnið í þaula og sá eini sem er kominn með búnað í grunnbúðir. Það er gríðarlega erfitt verkefni að hans sögn en stóri hópurinn ætlar að koma til Pakistan á milli jóla og nýárs. Þannig að þeir verði töluvert seinna á ferðinni en John Snorri og feðgarnir. 

mbl.is