Þakka læknisfræðimenntun Dags fyrir viðbrögðin

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist vera stoltur af viðbrögðum borgarinnar …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist vera stoltur af viðbrögðum borgarinnar við faraldrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir mikilvægt að Íslendingar séu stoltir af árangri í viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum og nýta þurfi hvert tækifæri til að tala máli Íslands á alþjóðavettvangi. „Það er verðmætt og mun skila sér margfalt og á margvíslegan hátt þegar við komum út úr kófinu,“ segir hann, í tilefni af gagnrýni sem komið hefur fram í kjölfar myndbands frá fréttastofunni Bloomberg.

„Einhverjir hafa verið að grínast með að Reykjavík og mér séu eignuð þessi viðbrögð í myndbandi Blooomberg, vegna þess að fókusinn er á Reykjavík þar.“ 

Segir Dagur að strax frá fyrsta degi hafi hluti af umræðunni verið að leggja áherslu á samstarf, samtal og markvissa miðlun upplýsinga til að vinna gegn óvissu og misvísandi skilaboðum, að sögn Dags. 

Læknisfræðimenntunin hafi nýst í baráttu við faraldurinn 

„Læknisfræðimenntun Dags B. Eggertssonar, borgarstjóri í Reykjavík, hefur nýst vel í viðbrögðum borgarinnar við kórónuveirufaraldrinum og hefur tekist vel til. Fljótlega skipaði borgin sér í fremsta flokk á sviði skimana og smitrakningar,“ segir Mike Bloomberg stofnandi fréttastofunnar, í myndskeiðinu sem hefur vakið misjöfn viðbrögð.

„Ég hef þvert á móti talið það einn meginstyrkleika okkar Íslendinga að hafa notað almannavarnakerfið og það víðtæka samstarf sem það felur í sér um land allt til að ná þeirri samstillingu og samvinnu sem þarf í viðbrögðum við faraldri sem þessum,“ segir Dagur og bætir við að Reykjavíkurborg og höfuðborgarsvæðið hafi ekki látið sitt eftir liggja. Samvinnan hafi verið frábær og fagfólk í framlínunni á heimsmælikvarða. 

„Ég hef verið í borgarstjórasamstarfi sem Bloomberg stendur fyrir, ásamt meira en 50 öðrum borgarstjórum og fengið innsýn hvernig hefur gengið víða um heim. Þegar litið er til árangurs í viðbrögðum við faraldurinn þá sker Ísland sig úr ásamt fáeinum öðrum þessum hópi,“ segir hann.

Til dæmis séu Reykjavík og Helsinki á allt öðrum stað en margar aðrar borgir enda hafi Ísland og Finnland tekið faraldurinn sérlega faglegum og föstum tökum.

Ég er ekki viss um að allir átti sig á að almannavarnir höfuðborgarsvæðisins hafa komið töluvert að útfærslu og samræmingu á sóttvarnaaðgerðum í gegnum samráð sveitarfélaganna og almannavarnakerfið,“ segir Dagur. 

Sama megi segja um fagsvið borgarinnar, sem unnið hafa í samráði við önnur sveitarfélög. 

„Þetta kerfi er ótrúlega vel smurt og það eru einfaldlega ekki mörg lönd sem geta sett sóttvarnareglur eða nýja reglugerð einn daginn og tryggt að margvísleg þjónusta, skólastarf og svo framvegis vinni sem einn maður eftir því örfáum klukkustundum síðar,“ segir Dagur.

Frammistaða þríeykisins á heimsmælikvarða

Að hans mati hafi frammistaða þríeykisins verið á heimsmælikvarða, þar sem það leggi vísindi og gögn til grundvallar hverju skrefi, sem leiði af sér aukið traust á tilmælum og fyrirmælum stjórnvalda.

„Ég er mjög stoltur að hafa tekið þátt í þessu mikilvæga samstarfi í gegnum neyðarstjórn borgarinnar og almannavarnir og ekki síður stoltur af þjónustu og stofnunum borgarinnar í faraldrinum, framlagi velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og menningarsviðs, segir hann undir lokin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert