Vetrarfærð um allt land

mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Vetrarfærð er í flestum landshlutum samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni í morgun. Hálka er á Hellisheiði, Sandskeiði og í Þrengslum en snjóþekja í Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Víðast hvar er hálka, snjóþekja eða hálkublettir á suðvesturhorni landsins. Greiðfært er á helstu leiðum út frá Reykjavík.

Snjóþekja og éljagangur er á Holtavörðuheiði, Bröttubrekku og Vatnaleið. Svipaða sögu er að segja á fleiri leiðum á Vesturlandi en annars hálka eða hálkublettir. Á Norðurlandi er snjór á Öxnadalsheiði en hálka á Vatnsskarði. Snjóþekja, hálka eða hálkublettir á flestum öðrum leiðum. Á Norðausturlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Þungfært er á Dettifossvegi.

Það er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum á Austurlandi en þæfingsfærð á Mjóafjarðarheiði. Greiðfært er með ströndinni frá Reyðarfjarðar og suður úr. Á Suðurlandi er hálka eða hálkublettir á nánast öllum leiðum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á sjöunda tímanum í morgun.

mbl.is