Vill engar afléttingar fram að jólum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Of snemmt er að lýsa yfir sigri í baráttunni við kórónuveiruna. Núna er hins vegar rétt að taka að ofan fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til og fagna virkni þeirra. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Þrátt fyrir góðan árangur segist hann ekki vilja aflétta neinum sóttvarnaraðgerðum fyrir jól.

Nýgengi kórónuveirusmita er nú lægst hér á landi í samanburði við önnur lönd í Evrópu.

„Fyrir fáeinum vikum var hér nánast sama nýgengi og í Bandaríkjunum. Sjáðu núna hvar við stöndum miðað við ástandið þar,“ segir Kári í samtali við mbl.is.

Er búið að bjarga jólunum?

„Ég tel það já,“ segir Kári en bætir við að landsmenn megi ekki missa dampinn.

„Þetta er pirrandi. Og þetta á bara eftir að verða meira pirrandi eftir því sem fleiri fara í verslanir að kaupa inn fyrir jólin. Ég tel hins vegar að við eigum að halda þessu svona eins og þetta er núna í nokkrar vikur enn. Þá verður afhending bóluefnis vonandi í augsýn og ekki eins mikil áhætta að fara í afléttingar.“

Kári segir að núna getum við tekið skref til baka og sagt okkur sjálfum: „Þetta er að virka.“

Smáralind um síðustu helgi. Víða hafa biðraðir myndast fyrir utan …
Smáralind um síðustu helgi. Víða hafa biðraðir myndast fyrir utan verslanir vegna samkomutakmarkana. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Viðkvæmust fyrir á landamærunum

Kári segist vera ósamþykkur þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið á landamærunum. Landamærin séu sá staður þar sem hvað mesta varkárni þurfi að sýna.

„Það er að verða ljóst að við erum viðkvæm fyrir á landamærunum. Þar fáum við inn ný smit hingað til lands. Frá mínum bæjardyrum séð er óskynsamlegt að veita fólki val um að fara í sóttkví við komuna til landsins eða í skimun. Þeir sem hafa valið að fara í sóttkví hafa gjarnan valið svo vegna þess að þeir ætluðu einmitt að virða hana ekki.“

Kári heldur áfram.

„Það að halda að það að stinga pinna upp í nefið á einhverjum sé meiri frelsisskerðing en að skikka hann í sóttkví er hlægilegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina