Vonandi hægt að rýmka ýmislegt

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, býst við því að hægt verði að kynna til­slakanir á sam­komu­tak­mörkunum eftir helgi. Hann segir að hættumat sé í gangi hjá sóttvarnayfirvöldum en hugmyndir um tilslakanir hafi verið ræddar. Þetta sagði Víðir í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Núgildandi aðgerðir renna út á fullveldisdaginn, 1. desember. „Það er ekki mjög langt í það. Hættumat er í gangi til að meta hvað er til ráða. Þórólfur [Guðnason sóttvarnalæknir] mun örugglega vinna það í vikunni því það þarf að kynna það upp úr næstu helgi,“ sagði Víðir. „Það eru hugmyndir um að slaka á einhverju. Vonandi, ef þetta heldur svona áfram, verður hægt að rýmka ýmislegt sem gerir það að verkum að við getum haldið jól með skárra formi en við héldum fyrir tveimur vikum.“

Líkt og greint hefur verið frá er Ísland nú með lægsta nýgengi kórónuveirunnar í álfunni, um 55 smit á hverja 100 þúsund íbúa síðastliðnar tvær vikur. Þó hefur gengið töluvert hægar að ráða niðurlögum þriðju bylgjunnar en þeirrar fyrstu, og má eiginlega segja að Ísland sé á toppnum vegna þess hve hratt smitum hefur fjölgað annars staðar í álfunni.

Í viðtali við RÚV segir Víðir að meira sé um hópsmit í þriðju bylgjunni en þeirri fyrstu. Eins séu fleiri svokölluð klasasmit, þar sem um 6-10 manns smitist á sama staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert