„Covid lýkur hvergi fyrr en því lýkur alls staðar“

Sagði sóttvarnalæknir mikilvægt að bera saman afleiðingar af kórónuveirusýkingu og …
Sagði sóttvarnalæknir mikilvægt að bera saman afleiðingar af kórónuveirusýkingu og af bóluefni. Ljósmynd/Almannavarnir

„Covid lýkur hvergi fyrr en því lýkur alls staðar,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag þegar rætt var um mikilvægi bólusetninga fyrir kórónuveirunni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði bólusetningu lykilinn út úr faraldrinum og það væri ánægjulegt að samkvæmt nýrri skoðanakönnun væru 95% Íslendinga jákvæðir gagnvart bólusetningu. Það væri alvarlegt kæmi upp sú staða að fólk færi að líta bólusetninguna sem hættulega. Sjálfsagt myndi þó skapast umræða þegar að bólusetningum kæmi.

Sagði sóttvarnalæknir mikilvægt að bera saman afleiðingar af kórónuveirusýkingu og bóluefni. Afleiðingar bólusetningar væru sennilega margfalt minni en af kórónuveirusýkingu, sérstaklega til lengri tíma litið.

Langtímaafleiðingar umfram það sem eðlilegt geti talist

Undir þetta tók Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, og sagði hann ljóst að kórónuveirusýking væri lífshættuleg, auk þess sem ýmislegt benti til langtímaafleiðinga umfram það sem talist geti eðlilegt.

Komi ekki fram nein vandkvæði við bólusetningu við kórónuveirunni væru það hagsmunir allra að sem flestir yrðu bólusettir.

70% virkni ákveðin vonbrigði

Þá bætti Þórólfur við, að til þess að ná hjarðónæmi yrðu 60% þjóðarinnar að láta bólusetja sig. Yrði einungis notast við bóluefnið frá AstraZeneca, sem virðist hafa 70% virkni, yrði að bólusetja alla þjóðina til að ná 70% ónæmi. Sagði hann þessa virkni nokkur vonbrigði eftir fregnir af öðrum bóluefnum sem hafa 90-95% virkni, en að skoða yrði betur hvort virkni væri mismunandi eftir hópum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert