Dæmdur fyrir innflutning á miklu magni heróíns og lyfja

Þessi mynd úr safni sýnir heróín sem hefur verið blandað …
Þessi mynd úr safni sýnir heróín sem hefur verið blandað fentanýli. AFP

Erlendur karlmaður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í hálfs árs fangelsi fyrir innflutning á heróíni auk talsverðs magns af lyfseðilsskyldum lyfjum. Var magn heróíns sem maðurinn var tekinn með um tvöfalt meira en allt það heróín sem lögregla hafði lagt hald á níu ár þar á undan.

Maðurinn var stöðvaður af tollgæslunni við komu til landsins frá Gdansk í Póllandi. Í fórum mannsins fundust tæplega 77 grömm af heróíni, 139 grömm af Ketador vet, 1.533 Oxycontin-töflur, 40 Contalgin Uno-töflur, 20 stykki af Fentanyl Actavis-plástrum, 335 Methylphendidate Sandoz-töflur, 10 morfíntöflur, 330 Rivotril-töflur og 168 Stesolid-töflur.

Í dóminum er vísað til þess að magn heróínsins sé umtalsvert, en á árunum 2011-2019 hafi lögreglan aðeins lagt hald á 38 grömm af efninu. Segir jafnframt að heróín og hin lyfin séu mjög hættuleg fíkniefni sem geti verið banvæn sé þeirra neytt í stærri skömmtum en ráðlagt sé.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust. Auk refsingar var honum gert að greiða tæplega 1,4 milljónir í lögmannskostnað og sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert