Engin þyrla til taks í lágmark tvo daga

TF-GRO lendir við Landspítalann.
TF-GRO lendir við Landspítalann. mbl.is/Árni Sæberg

Frá og með miðnætti á miðvikudag verður engin þyrla til taks hjá Landhelgisgæslunni vegna viðhalds TF-GRO, óháð því hvernig gengur í samningaviðræðum ríkisins og Félags íslenskra flugvirkja. Óvíst er hversu langan tíma viðhaldið mun taka en í besta falli verða það tveir dagar. Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Gæslunnar.

„Það er alveg pottþétt að það verða tveir dagar þar sem það verður engin þyrla,“ segir Ásgeir og á þar við fimmtudag og föstudag.

Samningaviðræður Félags íslenskra flugvirkja og ríkisins héldu áfram hjá ríkissáttasemjara klukkan 11.30 í morgun. Ekki náðist í formann félagsins, Guðmund Úlfar Jónsson, við vinnslu fréttarinnar.

Ýmislegt getur komið upp á

Ásgeir segir erfitt að segja til um hversu langan tíma viðhald TF-GRO tekur og segir að ýmislegt geti komið upp á við skoðun og lengt ferlið. Einnig fer það eftir því hversu margir geta unnið við hana.

TF-EIR lendir á Dalvík.
TF-EIR lendir á Dalvík. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Flugvirkjar, sem starfa einnig sem spilmenn, geta sinnt skoðuninni þar sem spilmenn eru ekki í verkfalli. Þyrlan TF-EIR er nú þegar í viðhaldi og ekkert hefur verið unnið í henni þessar rúmu tvær vikur síðan verkfallið hófst. Þess í stað hefur allt kapp verið lagt á að halda TF-GRO í flughæfu ástandi.

Ein þyrla í desember

Mikill skaði hefur þegar orðið vegna uppsafnaða viðhaldsins og tekur einhverjar vikur að vinda ofan af því. Ljóst er að ein þyrla verður til taks í desember, að sögn Ásgeirs. Þó að verkfallið leysist í þessari viku eru allar líkur á að TF-EIR verði enn í viðhaldi, að minnsta kosti til jóla. „Það er auðvitað alltaf sú staða uppi að önnur þeirra getur stöðvast, sérstaklega ef hin er enn í viðhaldi,“ segir hann. „Þannig að staðan er mjög slæm,“ bætir hann við.

mbl.is