Fylgst verði vel með þeim sem greinist við landamæri

Upplýsingafundur almannavarna. Þórólfur Guðnason.
Upplýsingafundur almannavarna. Þórólfur Guðnason. Ljósmynd/Almannavarnir

Svokallaður blár stofn kórónuveirunnar, sem hefur verið hvað mest áberandi í þriðju bylgju kórónuveirunnar hér á landi, er á hraðri niðurleið. Á sama tíma eru nýir stofnar að koma inn í gegnum landamærin, og uppruna einnar hópsýkingar hefur ekki tekist að rekja.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna.

Sagði Þórólfur sérstaklega mikilvægt nú að fylgjast með þeim sem greinist á landamærum og tryggja til þeirra upplýsingaflæði. Það megi alls ekki gerast að litlar hópsýkingar sem greinist við landamærin verði að stórum hópsýkingum, en að þriðja bylgjan hafi einkennst af miklum fjölda hópsýkinga.

Nýjar takmarkanir gildi út árið

Núgildandi samfélagstakmarkanir gilda til 1. desember og hyggst Þórólfur skila sínum tillögum vegna aðgerða sem gilda munu frá 2. desember til heilbrigðisráðherra um helgina. Vildi hann lítið segja um hvað hann hyggst leggja til, annað en að líklegt verði að þær takmarkanir muni gilda út árið.

Þá sé unnið að almennum leiðbeiningum er varða veisluhöld í kringum hátíðirnar, sem verði birtar í vikunni.

Undirbúning bólusetninga sagði Þórólfur í fullum gangi þrátt fyrir að enn væri ekkert fast í hendi.

Loks sagði hann árangur af þeim aðgerðum sem í gangi séu núna mjög góðan og að gleðjast mætti yfir því. Áframhaldandi árangur myndi standa og falla með þeim einstaklingsbundnu sýkingavörnum sem sífellt sé verið að predika.

mbl.is