Ók vel yfir hámarkshraða og gætti ekki að sér

Eftir slysið var hafist handa við að mála heila miðlínu …
Eftir slysið var hafist handa við að mála heila miðlínu á kafla Þingvallavegar í gegnum Mosfellsdal. mbl.is/Árni Sæberg

Hraðakstur og ógætilegur framúrakstur varð þess valdandi að 81 árs kona lést í umferðarslysi á Þingvallavegi við Æsustaði í júlí árið 2018.

Þetta kemur fram í niðurstöðu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Slysið varð þegar ökumaður Mitsubishi-bifreiðar ók fram úr nokkrum bifreiðum á Þingvallavegi á akrein fyrir umferð úr gagnstæðri átt og ók hann aftan á Suzuki-bifreið. Ökumaður Suzuki-bifreiðarinnar var að taka vinstri beygju út af veginum. Farþegi Suzuki-bifreiðarinnar lést í slysinu.  

Fram kemur í orsakagreiningu að ökumaður Mitshubishi-bifreiðar ók fram úr röð bifreiða án þess að ganga úr skugga um að það hafi verið unnt án hættu gagnvart umferð út af veginum. Einnig ók ökumaðurinn töluvert yfir hámarkshraða.

Niðurstaða hraðaútreiknings sérfræðings bendir til að hraði bifreiðarinnar hafi verið á bilinu 102 til 124 km/klst. áður en hún lenti aftan á Suzuki-bifreið þar sem konan var farþegi. Hraði Suzuki-bifreiðarinnar var metinn á bilinu 30 til 50 km/klst. Leyfilegur hámarkshraði á veginum er 70 km/klst.

Fram kemur að við áreksturinn hafi sætisbak farþegans í Suzuki-bifreiðinni bognað aftur, m.a. vegna þess að gólfið undir sætinu aflagaðist. Höggið frá árekstrinum kom á vinstra afturhorn bifreiðarinnar. Kastaðist farþeginn við það aftur í sæti sínu og inn að miðju, rann út úr öryggisbeltinu og hafnaði í aftursætinu. Hlaut hann banvæna höfuðáverka.

Ökumaður Mitsubishi-bifreiðarinnar var spenntur í öryggisbelti og hlaut áverka í slysinu.

„Eftir slysið voru gerðar endurbætur á yfirborðsmerkingum á veginum þar sem slysið varð. Framúrakstur var bannaður og óbrotin miðlína máluð á veginn. Þar sem umferð á veginum er talsverð og vegamót mörg þá telur Rannsóknarnefnd samgönguslysa að breytingin sé til mikilla bóta fyrir umferðaröryggi á þessum vegarkafla. Eins er fyrirhugað að setja niður tvö hringtorg, við Æsustaðaveg og Helgadalsveg ásamt nokkrum öðrum breytingum. Rannsóknarnefnd samgönguslysa fagnar þessum áformum og hvetur veghaldara til þess að flýta þessum framkvæmdum eins og kostur er,“ segir í athugasemd rannsóknarnefndar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert