Þú getur bjargað mannslífi

Stærsta alþjóðlega mannréttindaherferð heims í þágu þolenda mannréttindabrota, Þitt nafn bjargar lífi, er hafin en Amnesty International hefur undanfarin 17 ár staðið fyrir herferðinni.

Samtakamátturinn í Þitt nafn bjargar lífi á síðasta ári bjargaði m.a. lífi ungs drengs, Magai Matip Ngong frá Suður-Súdan. Hann var aðeins 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða. Um heim allan skrifuðu 765.000 einstaklingar undir mál hans og stjórnvöld brugðust við með því að fella dauðadóminn úr gildi í júlí 2020.

„Sjaldan hefur verið meiri þörf en nú að standa vörð um mannréttindi á tímum kórónuveirufaraldursins. Stjórnvöld víða um heim nýta sér ástandið til að fótumtroða enn frekar á réttindum fólks. Um heim allan er lífi og frelsi fólks ógnað. Konur og börn verða fyrir auknu ofbeldi. Hinsegin fólk sætir árásum og ungir aðgerðasinnar eru settir á bak við lás og slá fyrir það eitt að tjá skoðanir sínar og gagnrýna stjórnvöld. Friðsamir mótmælendur sæta barsmíðum og skotárásum, og umhverfisverndarsinnum er ógnað.

En aukið harðræði stjórnvalda víða hefur einnig þjappað fólki meira saman og samhugur og baráttuandi er ríkur á mörgum stöðum. Stjórnvöld verða að nota þetta tímabil í sögunni til að sýna að þau geta snúið ranglæti í réttlæti með því að leysa samviskufanga úr haldi, binda enda á ofsóknir gegn mannréttindafrömuðum og virða rétt sérhverrar manneskju til tjáningarfrelsis.

Það skiptir sköpum á þessum viðsjárverðu tímum að við sofnum ekki á verðinum heldur tökum afstöðu gegn mannréttindabrotum og höldum uppi þrýstingi á stjórnvöld víða um heim að gera betur.

Einfalt að taka þátt

Mannréttindasamtökin Amnesty International standa fyrir herferð ár hvert til bjargar …
Mannréttindasamtökin Amnesty International standa fyrir herferð ár hvert til bjargar mannslífum. Amnesty International

Íslandsdeild Amnesty International skorar á landann að láta ekki sitt eftir liggja á aðventunni í baráttunni fyrir betri heim með þátttöku sinni í herferðinni Þitt nafn bjargar lífi.

Það er ofureinfalt að taka þátt. Með einum smelli á vefsíðu Íslandsdeildarinnar geta þátttakendur sett nafn sitt á bréf til stjórnvalda sem brjóta mannréttindi og þannig stutt við mál tíu brotaþola eða valið þau mál sem þeir kjósa að styðja,“ segir í tilkynningu en næstu daga mun mbl.is fjalla um mál þeirra sem Íslandsdeild Amnesty beinir sjónum að í ár. 

Á síðasta ári var met slegið í fjölda undirskrifta sem söfnuðust á Íslandi í þágu þolenda mannréttindabrota þegar árleg herferð Amnesty International Þitt nafn bjargar lífi fór fram á aðventunni. Alls söfnuðust tæplega 90.000 undirskriftir Íslendinga á bréf til stjórnvalda sem krafin voru úrbóta og réttlætis vegna tíu áríðandi mála.  

Hér er hægt að skrifa undir

 

 

mbl.is