Undanþágubeiðni FG hafnað

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ. Mynd úr safni.
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Undanþágubeiðni stjórnenda Fjölbrautaskólans í Garðabæ frá núgildandi fjöldatakmörkunum og fjarlægðamörkum í framhaldsskólum var hafnað í dag. Kristinn Þorsteinsson skólameistari segist sætta sig við höfnunina en bendir á að aðstæður í skólanum séu þannig að það hafi orðið að láta reyna á þetta.

FG sótti um undanþágu og vildi þess í stað fá að fylgja reglum mennta-og menningarmálaráðuneytisins sem voru í gildi við upphaf haustannar að því viðbættu að grímuskylda væri þar sem ekki væri hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð á milli fólks.

Í rökstuðningi með undanþágubeiðninni er bent á að FG er áfangaskóli og því eru reglur um 25 manna sóttvarnahólf, sem gilda núna, ákaflega hamlandi. Afar fáir af 700 nemendum skólans eru með samskonar stundatöflu.

Enn fremur bendir Kristinn á að kerfið í FG sé ólíkt mörgum öðrum skólum. Önn hófst þar um miðjan mánuðinn og lýkur í febrúar, sem þýðir að kennt verður næstu fjórar vikurnar og engin jólapróf eru í skólanum.

Skólinn vill taka upp svipað kerfi og var í gildi í haust; eins metra fjarlægðamörk og 100 manna svæði.

Skipta átti skólanum upp í fimm svæði, öll svæði væru með sér inngangi og salerni. Á hverju svæði væru enn fremur nokkrar kennslustofur og nemendur með grímu þar sem þyrfti.

Í svari frá lögfræðingi heilbrigðisráðuneytisins segir að gæta þurfi að samræmi og jafnræði milli framhaldsskóla varðandi fjöldatakmörkun.

Beiðninni er því hafnað en bent er á að við endurskoðun reglugerðar verði sjónarmið skólans höfð til hliðsjónar.

mbl.is

Bloggað um fréttina