Atkvæðagreiðslukerfi Alþingis bilað

Atkvæðagreiðslukerfið er bilað. Heimilt er að greiða atkvæði með handauppréttingu …
Atkvæðagreiðslukerfið er bilað. Heimilt er að greiða atkvæði með handauppréttingu og viðbúið að sú leið verði nýtt á morgun, takist ekki að laga kerfið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kerfið sem þingmenn nota til að greiða atkvæði í þingsal er bilað. Þetta staðfestir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is.

Bilunin komst upp fyrir helgi þegar verið var að prófa kerfið fyrir þingfund. Unnið er að viðgerð en ekki tókst að koma kerfinu í lag áður en þingfundur hófst nú klukkan 13:30. Af þeim sökum voru fimm mál, sem öll hefðu krafist atkvæðagreiðslna, tekin af dagskrá þingfundarins en þess í stað haldið áfram með umræður annarra mála. Þegar hafði einu máli verið frestað á þingfundi á fimmtudag vegna bilunarinnar.

„Við vonum auðvitað að kerfið verði komið í lag fyrir morgundaginn,“ segir Ragna. „Annars er sá möguleiki fyrir hendi, ef í harðbakkann slær, að greiða atkvæði með handauppréttingu,“ segir hún en bætir við að slíkt sé seinvirkara.

Til stóð að greiða atkvæði um skýrslubeiðni Önnu Kolbrúnar Árnadóttur þingmanns um geðheilbrigðisþjónutsu í landinu, frumvörp iðnaðarráðherra um orkumerkingar og tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, frumvarp félagsmálaráðherra um skrá yfir störf hjá sveitarfélögum sem heimild til verkfalls nær ekki til, frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um búvörulög og þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu á breytingu á reglum um flutningastarfsemi í EES-samninginn.

Í upphaflegri útgáfu var sagt að bilunin hefði komist upp í morgun. Það hefur verið leiðrétt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert