Hið opinbera hætti að senda bréfpóst

Fjármálaráðherra mun leggja frumvarpið fram.
Fjármálaráðherra mun leggja frumvarpið fram. mbl.is/Árni Sæberg

Allar póstsendingar ríkisins verða stafrænar frá árinu 2025 nái frumvarp um stafrænt pósthólf fram að ganga. Frumvarpið er samið í fjármálaráðuneytinu en drög hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda.

Gert er ráð fyrir að ríkissjóður spari 300–700 milljónir króna árlega með breytingunni. Kostnaður ríkisins í póstburðargjöld er nú um 439 milljónir króna á ári, en auk póstburðargjalda er gert ráð fyrir sparnaði við umsýslu starfsmanna, prentun og fleira. Ætla má þó að opinbera hlutafélagið Íslandspóstur verði af háum fjárhæðum vegna breytinganna, þótt þau áhrif séu ekki tíunduð í greinargerð.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að einstaklingar og lögaðilar fái úthlutað sérstöku stafrænu pósthólfi í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda, Ísland.is. Þangað muni allar bréfasendingar frá opinberum stofnunum berast. Ráðgert er að innleiðingaráætlun liggi fyrir í lok árs 2021 og að allir opinberir aðilar hafi hafið stafræna birtingu eigi síðar en í ársbyrjun 2025.

Hefur sömu réttaráhrif og bréfpóstur

Fjöldi stofnana sendir nú þegar póst á fólk og fyrirtæki gegnum pósthólfið á Ísland.is. Með því að setja sérstök lög um pósthólfið er hins vegar tryggt að réttaráhrif þess að gera gögn aðgengileg í pósthólfi verði þau sömu og þegar gögn berast með bréfpósti eða öðrum hætti. Þannig verður til að mynda hægt að birta fólki stefnu stafrænt, og munu sérstakir stefnuvottar því sennilega missa lífsviðurværi sitt.

Við gerð frumvarpsins var litið til fordæma á Norðurlöndum. Í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi er ríkisstofnunum skylt að bjóða upp á gagnasendingar í stafrænt pósthóld, en einstaklingum ekki skylt að vera með slíkt. Segir í greinargerð að fyrir vikið sé notkun þeirra lítt útbreidd. Var því ákveðið að fylgja fremur fordæmi Dana, þar sem opinberum aðilum er skylt að senda gögn í stafræn pósthólf og einstaklingum sömuleiðis skylt að hafa slíkt pósthólf.

Opið verður fyrir umsagnir í samráðsgátt til 7. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert