„Höfum ekki tekið þessu möglunarlaust“

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ.
Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ. Ljósmynd/Lögreglan

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, segir að íþróttahreyfingin hafi ekki tekið sóttvarnatillögum yfirvalda möglunarlaust og að dæmi séu um að undanþágur hafi verið veittar eftir samskipti við þau. 

„Við höfum ekki tekið þessu möglunarlaust og erum í stöðugu samtali við almannavarnir og sóttvarnalækni og fulltrúa hans.“

Hún segir að sumir hafi haft orð á því að íþróttahreyfingin hafi engan málsvara. Það sé hins vegar ekki rétt.

„Við höfum komið skoðunum okkar á framfæri og í ýmsum þáttum hefur verið tekið tillit til þeirra,“ segir Líney. 

Hún segir að síðast hafi verið tekið tillit til skoðana íþróttahreyfingarinnar í október þegar börnum og ungmennum fæddum eftir 2004 og eldri var leyft að stunda skipulagt íþróttastarf að nýju í höfuðborginni. „Það hefur ekki alltaf verið hlustað á okkur, en við höfum reynt að koma á framfæri sjónarmiðum okkar,“ segir Líney. 

Taka samtalið við sóttvarnalækni 

Meðal þess sem bent hefur verið á varðandi sóttvarnaaðgerðir er að hér á landi virðast strangari takmarkanir um íþróttir fullorðinna heldur en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum og víðar. 

Æfingar barna og ungmenna hafa fallið niður af og til …
Æfingar barna og ungmenna hafa fallið niður af og til síðan Covid faraldur hófst. Rax / Ragnar Axelsson

Hafið þið mótmælt aðgerðum sem þið teljið of harkalegar? 

„Ég myndi ekki kalla það mótmæli en við höfum komið sjónarmiðum okkar á framfæri. Að sjálfsögðu förum við samt að þeim tilmælum sem sóttvarnalæknir hefur lagt upp með,“ segir Líney. „En við höfum átt samtalið og spurt um hvers vegna þetta er gert og hvers vegna annað er gert. En svo þegar lagt er upp með eitthvað í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins, þá verðum við að fara eftir því,“ segir Líney. 

Vilja meiri fyrirsjáanleika 

Hún segir að óvissan fari verst með íþróttahreyfinguna. „Við höfum verið að reyna að vinna með yfirvöldum að því að hafa einhvern fyrirsjáanleika í aðgerðunum. Hvernig sviðsmynd íþróttanna fari eftir því hvort um sé að ræða neyðarstig, hættustig eða óvissustig. Við erum búin að teikna upp drög með sóttvarnalækni og almannavörnum þannig að það verði meiri fyrirsjáanleiki um aðgerðir,“ segir Líney.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert