Siðanefnd Ríkisútvarpsins hefur komið saman og tekið til umfjöllunar kæru frá Samherja, varðandi meint brot ellefu fréttamanna miðilsins á siðareglum RÚV.
Þetta kemur fram í svari Gunnars Þórs Péturssonar, formanns nefndarinnar, við fyrirspurn mbl.is.
Siðanefnd RÚV var skipuð af Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra í haust en ný nefnd hafði ekki verið skipuð síðan fyrri nefnd lét af störfum í fyrra.
Kemur fram í svari Gunnars að siðanefndin hafi komið saman og að kæran sé til meðferðar. Á meðan málsmeðferðin sé í gangi tjái nefndin sig ekki um málið frekar, eðli málsins samkvæmt.
Það var í september síðastliðinn sem lögmaður Samherja lagði fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna meintrar þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum.