Magnús Tumi segir stöðuna grafalvarlega

Magnús Tumi Guðmundsson.
Magnús Tumi Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Nú er að koma upp sú grafalvarlega staða að flugfloti Landhelgisgæslunnar er að stöðvast vegna verkfalls flugvirkja. Flugvél Ísavía, sem einnig gegnir mikilvægu hlutverki, er líka lokuð inni vegna verkfallsins. Ekki er hægt að taka neina afstöðu í þessari deilu og það ber að meta að verðleikum þau mikilvægu störf sem flugvirkjar vinna,“ skrifar Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar Háskólans.

Hann segir það fullkomlega óásættanlegt að skipulag mála sé með þeim hætti að grundvallarþættir í öryggiskerfi landsins stöðvist vegna verkfalls. 

Færsluna kveðst Magnús hafa skrifað á síðu Jarðvísindastofnunar því hann sé ekki mjög virkur á eigin síðu. Auk þess telur hann fullvíst að allir starfsmenn stofnunarinnar taki undir orð hans.

„Náttúruhamfarir dynja oft yfir með stuttum fyrirvara. Snjóflóðin og óveðrin í vetur áttu sér ekki margra daga fyrirvara þar sem fyrirséð var í hvað stefndi. Fyrirvarinn fyrir eldgos er yfirleitt ekki langur, oft fáar klukkustundir. Í gosunum í Gjálp 1996, Grímsvötnum 1998, 2004 og 2011, Heklu 2000, Eyjafjallajökli 2010 og Holuhrauni 2014-15 gegndu þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar og flugvél Ísavía lykilhlutverki við að meta ástandið svo hægt væri að taka ákvarðanir um rýmingar og viðbrögð,“ skrifar Magnús Tumi.

Ef drægi til tíðinda á næstu dögum gæti sú staða komið upp að viðbragðið væri mjög laskað vegna þess að loftförin eru ekki flugfær.

„Farsóttin hefur sýnt okkur hve mikilvægt er að undirbúa sig fyrir áföll sem upp á geta komið. Hve mikilvægt er að hafa góðar áætlanir og öflugan hóp viðbragðsaðila sem veit hvernig á að bregðast við. En ef hópurinn hefur ekki þau tól og tæki sem þarf þegar vána ber að dyrum getur það aukið mjög tjónið sem af hamförum hlýst. Því þarf að finna tafarlaust lausn á þeirri deilu sem nú er að stöðva flugför Landhelgisgæslunnar og Ísavía,“ skrifar Magnús Tumi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert