Þingið verður „sannarlega ekki verkefnalaust“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að heilmörg stór mál séu eftir á dagskrá þingsins sem verði „sannarlega ekki verkefnalaust“. Hún segir óljóst nú eins og hefur verið á öðrum þingum hvaða mál komist í gegn í vetur. Atkvæðagreiðslukerfi Alþingis er nú bilað og það þýðir að þingmenn greiða ekki atkvæði um sinn. 

„Staðan í þinginu er sú að við erum með fjárlagavinnu sem fór seinna af stað en í venjulegu árferði því við hófum þingið aðeins seinna vegna aðstæðna. Við erum með fimmtu fjáraukalög ársins þannig að það auðvitað lýsir það líka aðstæðum og við erum enn að bregðast við stöðunni vegna heimsfaraldurs þannig að þetta hefur auðvitað allt tekið sinn tíma,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

„Síðan eru mörg önnur mál inni í þinginu. Það hefur gengið mjög vel að fá stjórnarfrumvörp inn á þingið á réttum tíma. Þannig að það vantar ekki verkefnin en þau eru ansi mörg.“ 

Nefndir þingsins vinna vel

Spurð um stærstu málin sem framundan séu segir hún þau heilmörg. 

„Til að mynda er nú á leið inn á þing viðamikil frumvörp frá félagsmálaráðherra um farsæld barna og gerbreytingu á umhverfi þeirra mála svo eitt dæmi sé tekið. Sóttvarnalögin voru að koma inn í þingið og verða vafalaust mikið rædd. Það eru stór mál á sviði umhverfis- og náttúruverndar sem varða þjóðgarð á hálendinu. Síðan hef ég væntingar til þess að stjórnarskrárfrumvörp komin inn í þingið öðru megin við áramót fyrir utan þessi stóru mál sem lúta að fjármálum ríkisins þannig að þingið verður svo sannarlega ekki verkefnalaust.“

Er þá óljóst hvaða mál þið náið að klára á þessu þingi? 

„Það er óljóst á hverju þingi en ég ber samt væntingar til þess. Mér finnst vinnan hafa gengið vel, málin hafa skilað sér á tiltölulega réttum tíma þó það sé alltaf einhver misbrestur á því auðvitað. Ég upplifi það að nefndir þingsins séu að vinna vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert