Viðsnúningur í faraldrinum en áhyggjur af jólum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að mikilvægur viðsnúningur hafi orðið á kórónuveirufaraldrinum hérlendis síðustu daga enda fá smit greinst innanlands undanfarið. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur undir það að faraldurinn sé á réttri leið en hefur áhyggjur af því að fólk muni slaka um of á að framfylgja reglum á aðventunni og yfir jólin.

„Ég, eins og fleiri, hef auðvitað áhyggjur af því að aðventu- og jólastemmningin verði öllu öðru yfirsterkara þannig að fólk fyllist óþolinmæði. Ég held að það sé mjög mikilvægt [að halda þetta út] í ljósi þess að við erum að fá þessar góðu fréttir af bóluefni,“ segir Katrín sem bendir á að Ísland hafi tryggt sér aðgang að fleiri en einu bóluefni. 

„Við erum að sjá mjög jákvæða þróun fyrir okkur. Við sem vorum á meðal þeirra ríkja fyrir fimm vikum sem höfðu hvað mesta útbreiðslu og nýgengi Covid-19 í Evrópu erum núna neðst á listanum svo það hefur orðið mjög mikilvæg breyting og viðsnúningur. Það er vegna þess að íslenskt samfélag er mjög samstillt og við erum líka sammála um það. 95% þjóðarinnar er á því að þessar aðgerðir sýni árangur og hafa trú á aðgerðunum enda sjáum við það beinlínis. Þá getum við vænt þess að við getum slakað á,“ segir Svandís. 

Katrín Jakobsdóttir ásamt Svandísi Svavarsdóttur.
Katrín Jakobsdóttir ásamt Svandísi Svavarsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Væri dýrmætt að geta átt gleðileg jól

Hún er sammála Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni um að það þurfi að fara mjög hægt og varlega í afléttingar. 

„Við þurfum líka, eins og bæði hefur komið fram hjá landlækni og sóttvarnalækni að fara aðeins yfir það í samfélagslegri umræðu hvers við megum vænta af aðventunni og jólunum svo við séum með væntingar í samræmi við þennan veruleika sem við þurfum að horfast í augu við.“

Katrín segir þó fulla ástæðu til að vona að Íslendingar muni geta haldið góð jól þó þau verði óhefðbundin. 

„Ég held að það muni vera okkur öllum mjög dýrmætt ef við getum átt jól með tiltölulega mikið hlé í faraldrinum.“

Undanþága fyrir FG hefði vikið of mikið frá aðgerðunum

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ sendi nýverið undanþágubeiðni til heilbrigðisráðuneytisins þar sem undanþágu var óskað fyrir skólann svo mögulegt væri að halda skólastarfi áfram með eins hefðbundnu sniði og hægt væri. Undanþágubeiðninni var hafnað. 

„Ég held að forsvarsmenn Fjölbrautaskólans í Garðabæ hafi, eins og kom fram í fjölmiðlum, gert sér grein fyrir því að það yrði líklegast niðurstaðan, þessari beiðni yrði hafnað en þau töldu rétt að óska eftir því að þetta yrði skoðað. Eins og er með undanþágubeiðnir almennt þá þurfum við – bæði sóttvarnalæknir og ráðuneytið – að bera það mjög vel að þeim markmiðum sem við viljum ná með sóttvarnaaðgerðum og þarna var niðurstaðan sú að það væri verið að víkja of mikið frá aðgerðunum og þannig yrði ekki nægilega tryggt að markmiðin væru höfð að leiðarljósi,“ segir Svandís. 

Kynna næstu aðgerðir „í tæka tíð“

Þrátt fyrir að flestir framhaldsskólar landsins geti opnað dyr sínar fyrir nemendum innan þeirra takmarkana sem nú eru í gildi hafa sumir kosið að halda dyrum sínum lokuðum. Spurð hvað henni finnist um það segir Svandís:

„Skólarnir hafa verið að fara hver sína leið og við höfum farið þessa leið á Íslandi á öllum skólastigum að skólarnir hafa fengið töluvert sjálfræði um það hvernig þeir hafa skipulagt sína starfssemi. Það er okkar nálgun. Menntamálaráðherra hefur verið í sambandi við einstaka skóla um það hvernig þessu er fyrirkomið og ég geri í sjálfu sér ekki athugasemdir við það. Það er framkvæmd á grundvelli reglugerða sem eru gefnar út af mér en ég kem ekki inn í útfærsluna á framkvæmdinni.“

Hvenær kynnið þið næstu aðgerðir? 

„Aðgerðirnar sem eru í gildi núna gilda til 2. desember svo við munum kynna það sem gerist þá í tæka tíð,“ segir Svandís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert