Fjallar um náttúruvernd á hagrænum nótum

Duko Hopman, ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey.
Duko Hopman, ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey. Ljósmynd/Aðsend

Duko Hopman, ráðgjafi hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey og einn höfunda nýútkominnar skýrslu fyrirtækisins um náttúruvernd á hagrænum nótum, kynnir niðurstöður hennar á fundi sem Landvernd stendur fyrir fimmtudaginn 26. nóvember.

Greint er frá þessu í tilkynningu frá Landvernd. Fundurinn hefst klukkan 19:30 annað kvöld og er öllum opinn á Facebook-síðu Landverndar.

Skýrslan ber titilinn Aðferðafræði til að mæla ávinninginn af verndun náttúrugæða jarðarinnar (Valuing nature conservation – A methodology for quantifying the benefits of protecting the planet´s natural capital) og kom út nú í haust.

Dýrategundum fækkað um tvo þriðju

„Eins og fjölmargar vísindarannsóknir sýna hafa ýmsar athafnir mannkyns rýrt mjög náttúruleg gæði jarðarinnar. Til dæmis er hægt að rekja um 14 prósent af losun kolefnis á heimsvísu til eyðingar skóga. Þetta eykur hraða loftslagsbreytinga og tíðni hamfara af völdum veðurs,“ segir enn fremur í tilkynningu Landverndar.

Niðurbrot vistkerfa, tap náttúrulegra búsvæða og loftslagsbreytingar hafa orðið til þess að dýrategundum hefur á síðustu 50 árum fækkaði um tvo þriðju. Líffræðilegur fjölbreytileiki verður sífellt fábreyttari um allan heim. Stöðugur ágangur mannkyns inn á sífellt ný náttúrusvæði eykur hættuna á að áður óþekktar bakteríur og veirur breiðist út og hafi í för með sér alvarlega sjúkdóma á borð við Covid-19.

Í skýrslu sinni metur McKinsey áhrif leiðar sem Sameinuðu þjóðirnar leggja til svo snúa megi af þessari braut, ekki aðeins vegna þess að lífríkið er í sjálfu sér ómetanlegt og verðmætt heldur vegna þess að mannkynið hafi beina efnahagslega hvata af því að vernda það

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert