Heilbrigðisstofnanir búi sig undir þyrluleysið

Engin þyrla verður tiltæk næstu tvo daga, fimmtudag og föstudag, …
Engin þyrla verður tiltæk næstu tvo daga, fimmtudag og föstudag, og jafnvel lengur, vegna verkfalls flugvirkja. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Ekkert viðbragð heilbrigðisstofnana getur komið í stað þyrlu landhelgisgæslunnar, að því er fram kemur í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is. Engin þyrla verður tiltæk næstu tvo daga, fimmtudag og föstudag, og jafnvel lengur, vegna verkfalls flugvirkja. Þyrlur landhelgisgæslunnar sinna yfirleitt alvarlegum slysum. 

Ráðuneytið hefur mælst til þess að stjórnendur heilbrigðisstofnana hugi „sérstaklega að þeim þætti sjúkraflutninga sem snýr að tækjum og búnaði til flutnings en einnig að mönnun og faglegum stuðningi við bráðatilfelli á hverjum stað.

Landspítali hefur að beiðni ráðuneytisins hafið undirbúning að því að mæta stöðunni eftir því sem hann getur. Þá er þess getið í svari ráðuneytisins að yfirlæknir utanspítalaþjónustu (sjúkraflutninga) sé jafnframt starfsmaður Landspítala. 

Þyrlurnar gegna mikilvægu hlutverki

Það kemur væntanlega ekkert viðbragð heilbrigðisstofnana í stað þyrlu? 

„Nei, þyrlur gegna mikilvægu hlutverki á þessu sviði. Sjúkraflutningar hér á landi fara fram með þrennu móti, þ.e. með sjúkrabílum, sjúkraflugi samkvæmt samningi við Mýflug og björgunarþyrlum Landhelgisgæslunnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar er helst kölluð út vegna alvarlegra umferðaslysa, þegar sækja þarf sjúklinga á haf út eða í óbyggðir og þegar veður eða aðrar aðstæður hamla sjúkraflutningum með sjúkrabílum eða flugvélum Mýflugs.“

Heilbrigðisráðuneytið sendi forstjórum heilbrigðisstofnana erindi 20. nóvember síðastliðinn þar sem þess var óskað að stofnanirnar huguðu sérstaklega að ákveðnum þáttum til þess að búa sig undir það að engin þyrla yrði tiltæk.

„Þar var þeim tilmælum beint til stjórnenda heilbrigðisstofnana og annarra rekstraraðila sjúkraflutninga „að huga sérstaklega að þeim þætti sjúkraflutninga sem snýr að tækjum og búnaði til flutnings en einnig að mönnun og faglegum stuðningi við bráðatilfelli á hverjum stað. Komi til þess að kalla þurfi til sjúkraþyrlu og ef ekki er hægt að verða við þeirri beiðni, er mikilvægt að aðrar flutningsleiðir séu nýttar og að fagfólk á vettvangi nýti sér ráðgjöf reyndara fagfólks í gegnum fjarskipti við erfiðari tilfelli og/ eða ef töf verður á flutningi af þeim sökum,“ segir í svarinu. 

Vona að samningar náist

Engin svör hafa borist við bréfinu en um tilmæli er að ræða og því ekki sérstaklega ætlast til svara.

Þetta hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir heilbrigðisstofnanir landsins?

„Þetta er mjög mikið áhyggjuefni og málið alvarlegt. Vonir eru bundnar við að samningar náist í kjaradeilu flugvirkja. Fundur Flugvirkjafélags Íslands og samninganefndar ríkisins vegna kjarasamnings flugvirkja Landhelgisgæslunnar hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara kl. 16. í dag. Fundað hefur verið með formanni fagráðs sjúkraflutninga vegna þessa mál og farið yfir stöðuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert