Rök fyrir því að stjórnarskrá hafi verið brotin

Þúsundir manna hafa verið í sóttkví.
Þúsundir manna hafa verið í sóttkví. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður telur heimildir heilbrigðisráðherra til sóttvarnaraðgerða reistar á hæpnum lagaheimildum.

Rök mæla með því að brotið hafi verið í bága við stjórnarskrá þegar ráðherra gaf út reglugerðir um sóttvarnir. Þetta kom fram í erindi Reimars á málþingi Orators sem fram fór í dag. Bar það yfirskriftina: Standast sóttvarnarlög stjórnarskrá?

Þá gagnrýnir hann að ekki hafi verið fyrr búið að gera breytingar á sóttvarnarlögum í ljósi þess að frá upphafi faraldursins hafi ekki verið skýrar lagaheimildir til aðgerða. 

„Sóttvarnarlögin eru mjög fáorð. Þar af leiðandi er afskaplega óskýr og óljós grundvöllur sem reglugerðir ráðherra byggjast á,“ segir Reimar í samtali við mbl.is.

Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður.
Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður.

Mannréttindi skert á óskýrum lagaheimildum 

Hann segir að fyrir vikið megi færa rök fyrir því að lýðræðið sé virt að vettugi þar sem ráðherra taki ákvarðanir byggðar á hæpnum lagaheimildum án þess að afla fullnægjandi heimilda frá þinginu. „Þegar samþykkt eru lög sem eru fáorð og geta þýtt allt og ekkert. Þá eru slík lög ekki frambærilegur grundvöllur fyrir ráðherra til þess að skerða veigamikil mannréttindi,“ segir Reimar. 

Hann tekur dæmi um það þegar fólk er sett í sóttkví, þá sé það byggt á ákvæði um afkvíun byggðalaga. 

„Menn nota þetta ákvæði til að senda menn í sóttkví ef þeir teljast hafa verið í samskiptum við sýktan einstakling. Það finnst mér langsótt. Þegar talað er um afkvíun byggðarlaga þá hugsa ég í það minnsta ekki með sjálfum mér að það þýði afkvíun einstaklinga,“ segir Reimar. 

Sektarboðun óheimil? 

Hann bendir á að ef setja á mann í sóttkví, þá þurfi sá hinn sami að eiga rétt á því að bera slíka ákvörðun undir dómstóla. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir því í lögunum. 

Mætti þá í framhaldinu færa rök fyrir því að sektir sem veittar hafi verið fyrir brot á sóttkví byggi á hæpnum lagaheimildum? 

„Þar bætist við önnur stjórnarskrárregla sem segir að það sé óheimilt að refsa mönnum nema á  grundvelli skýrrar lagaheimildar. Það er ekki bara það að frelsisskerðing byggi á hæpnum lagaheimildum, heldur eru gerðar auknar kröfur til lagaheimilda ef þú ætlar að beita refsingu.

Það er því ýmislegt sem bendir til þess að ef einhver er ósáttur við slíka sekt, þá geti sá hinn sami neitað að greiða hana. Verði hann ákærður þá gæti hann haldið því fram sem málsvörn að í lögum væri ekki skýr refsiheimild. Það er í það minnsta mjög frambærilegur málstaður að verja þó dómstólar eigi lokaorðið,“ segir Reimar. 

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðismálaráðherra, hefur sett fjölda reglugerða um sóttvarnir frá …
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðismálaráðherra, hefur sett fjölda reglugerða um sóttvarnir frá upphafi faraldursins. mbl.is/Ómar

Má færa rök fyrir því að sóttvarnarreglugerðir ráðherra séu brot á stjórnarskrá? 

„Það eru sjónarmið sem mæla með því að þetta séu brot á stjórnarskrá. Það er þó dómstóla að kveða á um það. En ég held að það sé viðurkennt að þessi lagagrundvöllur sé ekki eins skýr og teljist æskilegt,“ segir Reimar. 

Hann segir að nýframkomið frumvarp um breytingar á sóttvarnarlögum sé að einhverju leyti staðfesting á því að lagagrundvöllurinn hafi ekki verið fullnægjandi. Hann telur undarlegt að það hafi ekki komið fyrr fram. Tekur hann dæmi um að frumvörp um skýrari heimildir stjórnvalda til sóttvarna hafi komið fram í Danmörku í mars.

mbl.is

Bloggað um fréttina