Talsverðar líkur á að þyrlu verði óskað

Úr þyrlu landhelgisgæslunnar þegar hún flaug yfir Grímsvötnum í sumar.
Úr þyrlu landhelgisgæslunnar þegar hún flaug yfir Grímsvötnum í sumar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Síðustu fjögur ár hefur Landhelgisgæslan sinnt að meðaltali 253 útköllum á ári eða 21 útkalli á mánuði. Miðað við það eru talsverðar líkur á að þyrlu Landhelgisgæslunnar verði þarfnast á morgun eða föstudag, þegar engin þyrla verður til staðar.

Ljóst er að sökum verkfalls flugvirkja Landhelgisgæslunnar verður engin þyrla á vegum gæslunnar tiltæk frá miðnætti í nótt. Horfa verður til annarra möguleika á meðan þyrlan er fjarri góðu gamni. Þar sem ekkert danskt varðskip er í nágrenni við Ísland getur Landhelgisgæslan ekki nýtt sér samstarf við Dani sem gengur meðal annars út á það að þyrlur dönsku varðskipanna geti aðstoðað Íslendinga sé danskt varðskip í grennd við Ísland.

Landhelgisgæslan vinnur eftir tilteknum verklagsreglum ef upp koma atvik á sjó en það liggur alveg ljóst fyrir að þegar engin þyrla er til taks þá eru hendur okkar bundnar hvað þyrluflotann varðar. Í slíkum tilfellum verður að horfa til annarra tiltækra leiða sem í boði eru,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.

Hvaða leiðir eru í boði?

„Það væri fyrst og fremst varðskip, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar og ekki síst önnur tiltæk skip á sjó, svo sem fiskiskip í grennd við slysstað,“ segir Ásgeir.

Aðstoð Dana ekki í boði sem stendur

Eigið þið í einhverjum viðræðum við Dani um aðstoð?

„Það væri ekki Landhelgisgæslan sem myndi óska eftir sérstakri aðstoð heldur stjórnvöld. Við könnuðum staðsetningu dönsku varðskipanna en þau eru ekki við landið. Landhelgisgæslan er með samning við Dani og við höfum gjarnan fengið að hafa þyrlur dönsku varðskipanna til taks þegar eftir því hefur verið leitað en staðan er sú að ekkert danskt varðskip er í nágrenni við okkur svo sá möguleiki er ekki fyrir hendi núna.“

Engin þyrla verður til taks í að minnsta kosti tvo daga eins og að framan greinir. Sá tími er áætlaður út frá reynslu af sambærilegum skoðunum.

„En það verður auðvitað að horfa til þess að í skoðunum sem þessum getur ýmislegt komið upp svo vissulega getur tíminn orðið lengri en vonandi tekst að ljúka þessari skoðun á tveimur dögum.“

mbl.is