Þróa álrafhlöður hérlendis

Frá undirritun viljayfirlýsingar HÍ og Alor ehf.
Frá undirritun viljayfirlýsingar HÍ og Alor ehf. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Alor ehf. hefur hafið þróun á álrafhlöðum. Fyrirtækið var stofnað í mars á þessu ári með aðild spænskra og kanadískra vísindamanna. Á meðal markmiða þess er að setja á markað álrafhlöður sem geta geymt mikið magn raforku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. 

Álrafhlöður eru umhverfisvænni og öruggari en rafhlöður sem gerðar eru úr liþíum sem er algengasta efni til rafhlöðuframleiðslu í heiminum í dag. Efnið hefur marga ókosti, það er til í takmörkuðu magni, vinnsla þess er dýr og áhættusöm og af því stafar bæði eld- og sprengihætta. Einnig er förgun liþíum rafhlaðna enn óleyst vandamál.

Í fyrrnefndri tilkynningu kemur fram að kostir áls umfram liþíum sé ótvíræðir. Nokkrar ástæður eru fyrir því, ál er til í nægu magni, verð áls er lægra, það er ekki eldfimt og af því stafar engin sprengihætta auk þess sem endurvinnsluaðferðir áls eru þekktar.

Hér á landi eru starfandi þrjú álver sem gætu framleitt ál til umræddrar framleiðslu en álverin eru öll knúin með endurnýjanlegum innlendum orkugjöfum. 

„Býður upp á mikla möguleika“

„Það er því til mikils að vinna að finna aðra og betri lausn á geymslu rafmagns. Alor ehf. byggir þekkingu sína á álrafhlöðum á samstarfi  við fyrirtækið Albufera Energy Storage á Spáni sem er leiðandi í þróun á álrafhlöðum í Evrópu,“ segir í tilkynningunni. 

„Tæknin sem Alor býr yfir býður upp á mikla möguleika en gert er ráð fyrir því að stórar álrafhlöður geti geymt um 500 kWst af raforku. Til frekari útskýringar þá dugar sú orka til að sjá um 36 meðal heimilum fyrir raforku í sólarhring. Stórar færanlegar orkugeymslur munu án efa verða mikilvægur þáttur í öryggismálum í framtíðinni, ekki síst á hamfarasvæðum þar sem hefðbundnar flutningsleiðir hafa rofnað. Þessar aðstæður þekkjum við og höfum reynt á eigin skinni enda síðastliðinn vetur okkur flestum í fersku minni,” er haft eftir Valgeiri Þorvaldssyni stjórnarformanni Alor. Hann bætir eftirfarandi við: 

„Áherslur Alor eru einnig að stuðla að bættri nýtingu og draga úr sóun á grænni raforku hvort sem hún er framleidd á Íslandi eða annarstaðar. Þessi nýja tækni mun nýtast framleiðendum rafmagns hvort sem það er framleitt með vatni, vindi eða sólarorku við að draga úr sveiflum og ójafnvægi milli framleiðslu og notkunar. Til að standa við Parísarsamkomulagið og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna munu þjóðir heims leggja æ ríkari áherslu á að nýta alla græna orku sem möguleg er og stórar raforkugeymslur munu gegna þar lykil hlutverki.“

Alor og HÍ í samstarf

Í september síðastliðnum undirrituðu Alor og Háskóli Íslands viljayfirlýsingu um samstarf vegna þróunar nýrra lausna í geymslu á raforku. Yfirlýsinguna undirrituðu Valgeir, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands.

„Samkvæmt viljayfirlýsingunni hyggjast Háskólinn og Alor byggja upp þekkingu og stuðla að nýsköpun og framþróun á sviði hönnunar og framleiðslu álrafhlaðna. Í því felst að Háskólinn mun í samstarfi við Alor koma upp aðstöðu og innviðum fyrir rannsóknir á hönnun, prófunum og nýtingu rafhlaðanna en unnið er að fjármögnun aðstöðunnar í samstarfi Háskólans og Alor. Fram kemur í viljayfirlýsingunni að félagið muni styrkja árlega nám 1-2 framhaldsnema sem munu sinna rannsóknum í framleiðslu og hönnun rafhlaðna,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is