Veður mun líklega tefja umferð

Veðurstofan varar fólk við að vera á ferðinni í kvöld …
Veðurstofan varar fólk við að vera á ferðinni í kvöld og á morgun. mbl.is/RAX

Allar líkur eru á því að leiðinlegt veður á morgun muni tefja umferð á höfuðborgarsvæðinu. Veðurstofa Íslands hækkaði í dag viðvörunarstig á Ströndum og Norðurlandi vestra upp í appelsínugult. Gul viðvörun gildir fyrir mörg önnur svæði, meðal annars höfuðborgarsvæðið.

Í samtali við mbl.is réð Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur Veðurstofunnar, fólki á norðvesturhluta landsins frá því að vera á ferðinni í kvöld og þá sérstaklega á fjallvegum. Útlit er fyrir að á láglendi verði aðallega rigning en á fjallvegum verði snjór og hvassviðri og þar af leiðandi „afleitt ferðaveður“. 

Því geti verið mjög varasamt að fara í ferðalög milli landshluta og helst ætti ekki að ferðast mikið á appelsínugulu svæðunum. Hins vegar verði veðrið skárra sums staðar og því í lagi að ferðast. Snúist þetta því að einhverju leyti um skynsemi fólks. Víða verði þó vont veður.  

Á morgun verði hins vegar mikill og hvass vindur á suður- og vesturhluta landsins ásamt talsverðum éljagangi. Þá verði víða léleg akstursskilyrði og fólk ætti því ekki að ferðast að óþörfu. 

„Allar líkur á því að það muni tefja umferð 

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð éljagangi á morgun og því erfiðri færð.

„Leiðinlegt veður og allar líkur á að það muni tefja umferð og skapa leiðindatraffík,“ sagði Birgir Örn. Hann bendir einnig á að þeim, sem verði illa búnir, geti kólnað hratt. 

Óvíst er hvort élin muni ná jafnt yfir allt höfuðborgarsvæðið. Varðandi mismunandi veðurskilyrði á höfuðborgarsvæðinu segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur Veðurstofunnar, að það sé alltaf einhver munur. 

„Í kvöld og nótt verður suðaustanátt og þá er yfirleitt hvassast á Kjalarnesi. Á morgun verður svo suðvestanátt og þá er ekki eins mikill munur á vindi milli svæða. Má búast við að það verði jafnvel hvassast við sjóinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert