400 milljónir í kaup á bóluefni

Gert er ráð fyrir að bóluefni fyrir 75% þjóðarinnar muni …
Gert er ráð fyrir að bóluefni fyrir 75% þjóðarinnar muni kosta um 400 milljónir. AFP

Heildarfjárheimildir ríkissjóðs hækka um 65 milljarða, þar af 46,5 milljarða sem koma með framlagi úr ríkissjóði, samkvæmt nýju fjáraukalagafrumvarpi sem lagt var fram á Alþingi í gær. Stærstan hluta þessa má rekja til aukinna útgjalda vegna kórónuveirufaraldursins.

Stærsti einstaki liðurinn sem hækkar er vinnumarkaður og atvinnuleysi, en undir þann flokk falla 44,3 milljarðar. Þar af fara 15,9 milljarðar í hækkun útgjalda í atvinnuleysistryggingasjóð vegna aukins atvinnuleysis. Þá vara 2,1 milljarður í tímabundna lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði, 340 milljónir fara í aukið umfang á rekstri Vinnumálastofnunar, en þar hefur stöðugildum fjölgað um 48 milli ára. Þá hækkar liður um desemberuppbót um 150 milljónir og 23 milljarðar fara í hækkun vegna tekjufallsstyrkja.

400 milljónir fara í kaup á bóluefni gegn Covid-19, en fram kemur að miðað sé við að tvo skammta þurfi á hvern einstakling og 550 þúsund skammta þurfi því til að bólusetja 75% þjóðarinnar. Miðað er við að hver skammtur sé á 4 evrur, en til viðbótar bætist flutningskostnaður.

Þá er gert ráð fyrir 500 milljónum aukalega í þróunarsamvinnu vegna framlags Íslands við dreifingu og þróun bóluefnis til þróunarríkja, en forsætisráðherra hét því á fundi Alþjóðaónæmisaðgerðasjóðsins í byrjun júní að leggja sjóðnum og samtökum um nýsköpun vegna viðbúnaðar við farsóttum til 500 milljónir  vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þar af renna 250 milljónir til samtakanna til þróunar bóluefna en hinar 250 milljónir renna til Alþjóðaónæmisaðgerðasjóðsins sem sér um forkaupsrétt og dreifingu bóluefnis til þróunarríkja.

Meðal annarra liða sem hækka með fjáraukalagafrumvarpinu er að 2,1 milljarður verður til viðbótar settur í liðinn örorka og málefni fatlaðs fólks.

Þá hækka útgjöld vegna sjúkrahúsaþjónustu um 4,1 milljarð í frumvarpinu, en 3,7 milljarðar eru vegna ófyrirséðs kostnaðar vegna faraldursins. Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa hækkar um 1,8 milljarð og hjúkrunar og endurhæfingarþjónusta hækkar um 813 milljónir samkvæmt frumvarpinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert