Hlýddi ekki og vistaður í fangaklefa

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gærkvöldi ábending um mann sem á að vera sóttkví enn neitar að fara að reglum. Hann var því handtekinn og er vistaður í fangageymslu. 

Á fjórða tímanum í nótt tilkynnt um húsbrot í umdæmi lögreglunnar í Breiðholti og Kópavogi en þar hafði húsráðandi vaknað við hávaða inni í íbúð sinni. Þar var stúlka var komin inn í íbúðina en hljóp hún út er hún varð var við húsráðanda. 

Skömmu síðar var tilkynnt um tvo einstaklinga inni í íbúð er átti að vera mannlaus. Þegar lögreglan kom á vettvang var fólkið farið en hafði skilið eftir kúbein sem lögreglan lagði hald á. 

Í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í umdæmdi lögreglunnar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ. Vitað er hverjir voru þar að verki. Málið er í rannsókn lögreglu. Í sama umdæmi var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir um tvöleytið í nótt en þar reyndust menn vera að bera út póst. 

Á tíunda tímanum í gærkvöldi var tilkynnt til lögreglu um stúlku í annalegu ástandi sem lét ófriðlega í stigahúsi við Hverfisgötu. Þegar lögreglan kom á vettvang var stúlkan farin. Aftur á móti tókst að koma ölvuðum manni til bjargar sem var bæði blautur og hrakinn þegar lögreglan kom að honum á ellefta tímanum í gærkvöldi. Honum var ekið í gistiskýlið þar sem hann fékk húsaskjól í vonskuveðri. 

Einn var tekinn undir áhrifum fíkniefna undir stýri í gærkvöldi og eins var tilkynnt um þjófnað á bifreið sem fannst skömmu síðar mannlaus. Það mál er í rannsókn lögreglu. Eitt umferðarslys kom til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi en ekki urðu alvarleg slys á fólki. Aftur á móti þurfti að fjarlægja bifreiðarnar með dráttarbifreið. Tjón varð á bifreið er innkaupakerra fauk á bifreið á bifreiðaplani á höfuðborgarsvæðinu um klukkan 20 í gærkvöldi, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert