Kannast ekki við sögur um ólöglegt partý

Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Almannavarnir

Mbl.is barst ábending um að síðasta laugardag hafi verið haldinn gleðskapur í trássi við gildandi samkomutakmarkanir og að vegna þess hafi einhverjir greinst undanfarna daga með kórónuveiruna utan sóttkvíar. Svipaðar upplýsingar má finna á twitter þar sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar tístir um málið.

Þetta kannast þó Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á almannavarnasviði, ekkert við.

„Ég hef ekki heyrt af þessu, nei,“ sagði hann í samtali við mbl.is um hádegisbil. 

Hins vegar hafi verið þó nokkuð partýstand á fólki um liðna helgi, en ekki nákvæmlega eins og blaðamaður lýsti.

„Við vitum til þess að fólk hafi verið að hittast um helgina og kannski ekki alveg að passa sig nógu vel. Þetta ástand er fljótt að fara úr böndunum ef fólk gleymir sér í gleðinni.“ 

„Við vorum jákvæð í síðustu viku en núna höfum við áhyggjur að fólk missi dampinn við að heyra góðar fréttir af fækkun smita og virkni bóluefna. Hins vegar er desember ekki einu sinni kominn og við höfum verulegar áhyggjur einmitt af desembermánuði. Þess vegna erum við að brýna fyrir fólki að fara gætilega, ekki fara of geyst og muna að þessi jólahátíð verður frábrugðin því sem við erum vön og það verður ekki hægt að halda í sömu hefðir og venjulega.“

Engin breyting á aukinni mönnun yfir hátíðarnar

Borið hefur á því að fólk ætli sér að freista gæfunnar yfir hátíðarnar og treysta á að geta haldið gleðskap í trássi við sóttvarnalög í skjóli þess að lögregla verði of upptekin við að leysa upp partýstand annars staðar. Spurður um þetta segir Rögnvaldur að mönnun verði aukin. Skemmtanir stærri hópa á borð við fyrirtækja og íþróttafélaga gefur ástæðu til þess svo eitthvað sé nefnt.

„Það er nú venjan að mönnun hjá okkur í lögreglunni er aukin yfir hátíðarnar. Fólk er að ferðast og gleðjast saman og þá geta komið upp alls konar vandamál; ölvun, slys og veikindi.“

Veikindi innan lögreglunnar þá?

„Nei, bara meðal almennings. Eins og um allar hátíðir, hvort sem það eru jól, páskar, þorri eða hvað, þá tekur fólk svona hressilega til matar síns og ef það er með undirliggjandi kvilla þá á það til að veikjast.“ 

Víðir er aðal og Rögnvaldur til vara 

Rögnvaldur hefur nú vanið komur sínar á upplýsingafundi almannavarna í stað Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns og ætti hann því að vera landsmönnum kunnugur. Nú er Víðir hins vegar kominn í einangrun með virkt kórónuveirusmit og því hefur Rögnvaldur þurft að fylla í skarðið.

Víðir Reyn­is­son yf­ir­lög­regluþjónn er í einangrun.
Víðir Reyn­is­son yf­ir­lög­regluþjónn er í einangrun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nú vonum við svo sannarlega að ekki komi til þess, en hvað gerist ef Víðir fer að finna fyrir alvarlegri einkennum og þarf að vera frá í einhvern tíma, kemur þú í staðinn?

„Já, Víðir er yfirlögregluþjónn og ég er aðstoðaryfirlögregluþjónn. Eins og staðan er núna er þetta bara svo nýtt hjá okkur. Við erum að ráðast í stefnumótun innan almannavarnasviðsins og niðurstaða þeirrar vinnu mun liggja fyrir í mars.

En já, ég er vara-Víðir. Ég er plan-B.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert