Landsbjörg hefur þungar áhyggjur af þyrluleysinu

Þyrla landhelgisgæslunnar. Engin þyrla verður tiltæk næstu daga.
Þyrla landhelgisgæslunnar. Engin þyrla verður tiltæk næstu daga. mbl.is/Árni Sæberg

Formaður Landsbjargar segir að vel sé hægt að sjá fyrir sér að meira álag verði á björgunarsveitunum á meðan engin þyrla á vegum landhelgisgæslunnar verður tiltæk. Vegna verkfalls flugvirkja verður engin þyrla tiltæk í dag og á morgun og jafnvel lengur. Landsbjörg hefur „þungar áhyggjur“ af ástandinu.

Björgunarsveitir landsins eru ekki í sérstakri viðbragðsstöðu vegna þyrluleysisins.

„En við höfum þungar áhyggjur af þessu ástandi og það er bara þannig að gæslan og þyrlur gæslunnar eru bara einn hlekkur í viðbragðskeðjunni, ákaflega mikilvægur hlekkur. Því til viðbótar eru þyrlur gæslunnar öryggistæki fyrir aðra viðbragðsaðila,“ segir Þór Þorsteinsson formaður Landsbjargar.

Aðspurður segir Þór vel hægt að sjá það fyrir sér að það verði meira álag á björgunarsveitunum vegna þyrluleysisins.

Miklu vonskuveðri er spáð á landinu í dag.

Eins og mbl.is greindi frá í gær þá hefur heilbrigðisráðuneytið mælst til þess að stjórn­end­ur heil­brigðis­stofn­ana hugi „sér­stak­lega að þeim þætti sjúkra­flutn­inga sem snýr að tækj­um og búnaði til flutn­ings en einnig að mönn­un og fag­leg­um stuðningi við bráðatil­felli á hverj­um stað,“ vegna þess að engin þyrla verður tiltæk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert