Milljarður vegna fleiri nemenda og gríma

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Lagt er til að fjárheimild til framhaldsskóla og háskóla hækki um tæpan milljarð króna samkvæmt nýju fjáraukalagafrumvarpi sem var lagt fram í gær. Ástæðan er meðal annars fjölgun nemenda og grímunotkun.

Lagt er til að fjárheimild framhaldsskóla hækki um 447,2 milljónir króna sem skýrist af tveim tilefnum. Annars vegar er lagt til að veita 550 milljónum króna vegna fjölgunar nemenda í framhaldsskólum landsins. Fram kemur að vegna aukins atvinnuleysis vegna áhrifa heimsfaraldursins hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að framhaldsskólar tækju við fleiri nemendum sem sótt hafa um framhaldsskólanám. Framhaldsskólar hafa tekið vel í málaleitan stjórnvalda og reynist mismunur á fjölda framhaldsskólanemenda á haustönn 2019 og í september 2020 verða 1.340 reiknaðir nemendur í fullu námi, að því er segir í frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að unnt verði að mæta hluta kostnaðar með framlagi af uppsöfnuðum varasjóði málaflokksins.

Hins vegar er lagt til að veittar verði 18,9 milljónir króna vegna kostnaðar við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um grímunotkun í skólum landsins sem hluta af sóttvarnaráðstöfunum.

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lagt er til að auka fjárheimildir háskóla og rannsóknarstarfsemi um samtals 494,3 milljónir króna. Meðal annars er lagt til að auka fjárheimildir um 500 milljónir króna vegna fjölgunar nemenda í háskólum landsins. Fram kemur að vegna atvinnuástands í tengslum við Covid-19 hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á að háskólar tækju við fleiri nemendum sem sótt hafa um háskólanám. Háskólar hafa tekið vel í málaleitan stjórnvalda og reynist mismunur á fjölda háskólanemenda í fjárlagafrumvarpi 2020 og haustönn 2020 vera rúmlega 1.800, samkvæmt frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að unnt verði að mæta hluta kostnaðar með framlagi af uppsöfnuðum varasjóði málaflokksins. 

Einnig er m.a. lagt til að veita 120 milljónir vegna aukins kostnaðar háskóla vegna aðgerða stjórnvalda vegna heimsfaraldursins. Sömuleiðis er gert ráð fyrir 18,7 milljóna króna aukningu vegna kostnaðar við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um grímunotkun í skólum landsins sem hluta af sóttvarnaráðstöfunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert