Vonskuveður í vændum – slær í 40 m/s

Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir vonskuveður á stórum hluta landsins í dag, einna verst á Reykjanesinu og á Faxaflóasvæðinu en þar má búast við því að vindur nái 25 metrum á sekúndu og fari í 40 metra í hviðum. Veðrið verður verst frá hádegi fram á kvöld og ætti fólk að forðast að vera á ferðinni að nauðsynjalausu.

Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þrátt fyrir að viðvaranir séu í gildi frá morgni til kvölds þá megi búast við að þær muni gilda lengur þar sem spáin verður uppfærð á eftir. Veðrið verður slæmt um nánast allt land en verst frá Þorlákshöfn að Breiðafirði. Hitinn fellur hratt þessa stundina og upp úr hádegi verða komin mjög hvöss og dimm él víða.

Í nótt var hvöss suðaustanátt og mikil úrkoma á sunnan- og vestanverðu landinu. Eins snerist vindur til suðvesturs og þá byrjaði að élja. Útlit er fyrir að þessi suðvestanátt haldi jafnvel fram á sunnudag. Í dag og fram á morgundaginn, eru í gildi gular og appelsínugular viðvaranir vegna hríðarveðurs. Élin geta verið mjög dimm og hvöss.

Suðvestan 18-25 m/s eftir hádegi í dag og dimm él en hægari og úrkomuminna austan til. Síðan minnkandi suðvestanátt á morgun, 13-18 m/s og áfram éljagangur, einkum um sunnanvert landið. Hiti kringum frostmark.

Kort/Veðurstofa Íslands

Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun í gildi frá klukkan 9 og gildir hún til morguns, föstudag. „Suðvestan 15-23 m/s og mjög dimm él. Hálka á götum og gangstéttum og skyggni mjög takmarkað á köflum, sem getur valdið vandræðum í umferðinni.“

Á Suðurlandi tekur gul viðvörun gildi á hádegi og gildir til morguns, föstudag. „Suðvestan 15-23 m/s með éljagangi. Mjög lítið skyggni í éljum og því varasöm akstursskilyrði. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda.“
Við Faxaflóa er gul viðvörun frá klukkan 9 til 13 en þá er viðbúnaðarstigið hækkað í appelsínugult ástand. Það gildir til klukkan 23 hið minnsta. „Suðvestan 18-25 m/s með éljagangi. Mjög lítið skyggni í éljum og því varasöm akstursskilyrði. Einnig má búast við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda.“
Við Breiðafjörð er gul viðvörun frá 9-12 en þá tekur við appelsínugul viðvörun sem gildir til 23. „Búist er við suðvestan 18-25 m/s og talsverðum eða miklum éljagangi. Búast má við takmörkuðu skyggni og ört versnandi akstursskilyrðum. Einnig má búast við miklu hvassviðri í éljahryðjunum.“
Á Vestfjörðum er gul viðvörun í gildi frá klukkan 10:00 langt fram á nótt. „Búist er við suðvestan 18-25 og talsverðum eða miklum éljagangi. Búast má við takmörkuðu skyggni og ört versnandi akstursskilyrðum. Einnig má búast við miklu hvassviðri í éljahryðjum.“
Strandir og Norðurland vestra - gult ástand frá klukkan 12 þangað til á morgun, föstudag. „Búist er við suðvestan 18-25 og talsverðum eða miklum éljagangi. Búast má við takmörkuðu skyggni og ört versnandi akstursskilyrðum. Einnig má búast við miklu hvassviðri í éljahryðjum.“
Norðurland eystra - gult ástand hefur verið í gildi þar síðan í gærkvöldi og gildir til klukkan 8. „Sunnan 18-25 m/s, hvassast vestan til. Snjókoma með köflum.
Á miðhálendinu hefur appelsínugul viðvörun verið í gildi frá því í gær og gildir til klukkan 7. „Suðaustan og síðar sunnan 20-30 m/s og talsverð snjókoma eða slydda. Ekkert ferðaveður.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:
Suðvestan 13-23 m/s og éljagangur, en bjartviðri norðaustanlands, hvassast við suður- og vesturströndina. Hiti kringum frostmark.

Á laugardag:
Minnkandi suðvestanátt og él en bjartviðri eystra. Frost 0 til 4 stig, en hiti 0 til 3 stig með suðurströndinni.

Á sunnudag:
Breytileg átt 5-10 m/s en vestan 8-13 syðst. Snjókoma eða slydda með köflum, einkum sunnan- og austanlands. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Hægt vaxandi austanátt með slyddu og síðar rigningu, fyrst á sunnanverðu landinu. Hlýnandi veður.

Á þriðjudag:
Líkur á hvassri sunnanátt með rigningu eða slyddu. Milt í veðri.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir suðlæga átt og slyddu en hvassa norðaustanátt og snjókomu norðvestan til. Kólnar heldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert