Brandenburg valið úr hópi umsækjenda

Á myndinni eru María Reynisdóttir, Arnar Halldórsson, Ásgerður Karlsdóttir, Dóri …
Á myndinni eru María Reynisdóttir, Arnar Halldórsson, Ásgerður Karlsdóttir, Dóri Andrésson, Bragi Valdimar Skúlason, Rúna Dögg Cortez og Hildur Kristjánsdóttir. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs auglýstu á dögunum eftir hönnuði eða hönnunarteymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis og kynningarefnis fyrir nýtt kerfi áfangastaðastjórnunar, sem ber vinnuheitið Fyrirmyndaráfangastaðir í ferðaþjónustu.

Alls bárust 13 umsóknir um að taka verkefnið að sér en að lokum var það niðurstaða valnefndar að bjóða auglýsingastofunni Brandenburg verkefnið, að því er segir í tilkynningu.

„Ég vil þakka Miðstöð hönnunar og arkitektúrs fyrir að leiða valferlið og við hlökkum til að vinna að mótun ásýndar Fyrirmyndaráfangastaða með Brandenburg, í þágu íslenskrar ferðaþjónustu”, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- ,iðnaðar - og nýsköpunarráðherra, í tilkynningunni.

„Undanfarin ár hefur uppbygging innviða á áfangastöðum ferðamanna um land allt verið í fyrirrúmi, með áherslu á náttúruvernd og öryggismál. Með þessu verkefni höldum við áfram á þeirri braut en með nýrri nálgun á áfangastaðastjórnun, sem tekur aukið tillit til upplifunar gesta og sérkenna hvers staðar. Það er okkar von að Fyrirmyndaráfangastaðir efli jákvæða ímynd Íslands sem lands sjálfbærrar þróunar, í takt við framtíðarsýn og leiðarljós ferðaþjónustunnar til 2030.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert