Bundu enda á verkfall flugvirkja gæslunnar

Þingsalur Alþingis. Þingið samþykkti að setja lög á verkfall flugvirkja …
Þingsalur Alþingis. Þingið samþykkti að setja lög á verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Frumvarp um lög á verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar var samþykkt á Alþingi rétt í þessu. Lögin taka gildi þegar í stað. 

42 þingmenn samþykktu frumvarpið, sex greiddu atkvæði á móti því og fimm greiddu ekki atkvæði. 

Þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði með frumvarpinu, sama má segja um alla þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Viðreisnar, Flokks fólksins og Miðflokksins. Þingmenn Pírata og þingmenn utan flokka greiddu atkvæði gegn lögunum og þingmenn Samfylkingarinnar sátu hjá. 

Málið gekk til Alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar og skilaði meiri­hluti nefnd­ar­inn­ar áliti sínu um 8 leytið. Meiri­hluti nefnd­ar­inn­ar mælt­ust til þess að frum­varp dóms­málaráðherra um kjara­mál flug­virkja Land­helgs­gæslu Íslands yrði samþykkt óbreytt.

Und­ir álitið rituðu: Páll Magnús­son, Birg­ir Ármanns­son, Bjarkey Ol­sen Gunn­ars­dótt­ir, Silja Dögg Gunn­ars­dótt­ir, Stein­unn Þóra Árna­dótt­ir, Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dótt­ir og Þor­steinn Sæ­munds­son. Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son, áheyrn­ar­full­trúi í nefnd er samþykk­ur nefndaráliti meiri­hluta.

Guðmund­ur Andri Thors­son skilaði minni­hluta­áliti. Hann taldi ekki full­reynt að samn­ing­ar gætu náðst.

Sannarlega „svartur föstudagur“

Þingmenn Pírata greiddu atkvæði gegn lögunum og sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, að þingmenn flokksins ætluðu sér ekki að taka þátt í „þessari aðför“. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata sagði að sannarlega væri „svartur föstudagur í dag“.

Þingmenn Samfylkingarinnar greiddu ekki atkvæði með frumvarpinu. Oddný G. Harðardóttir, þingmaður flokksins, sagði það á ábyrgð samningsaðila að ná samningum en stjórnvöld hefðu ekki staðið undir þeirri ábyrgð. Staðan væri í boði ríkisstjórnarinnar. 

Þingmenn Viðreisnar greiddu atkvæði með frumvarpinu og sagði Hanna Katrín Friðriksson þingmaður flokksins að það væri vegna þeirra aðstæðna sem væru uppi. Ábyrgðin á aðstæðunum væri þó á herðum ríkisstjórnarinnar. 

Þingmenn Framsóknarflokksins greiddu, atkvæði með frumvarpinu. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði augljóst að lengra hafi ekki verið hægt að komast í samningsviðræðum eins og stendur. Öryggi landsmanna væri ógnað vegna verkfallsins.  

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dómsmálaráðherra mælti fyr­ir frum­varp­inu á fjórða tím­an­um í dag. Tekist var á um málið á þingi í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert