Landnámsegg innkölluð

Landnámsegg frá Hrísey
Landnámsegg frá Hrísey

Landnámsegg í Hrísey hafa innkallað öll egg frá sér í samráði við Matvælastofnun, en hátt gildi díoxíns mældist í eggjunum nýlega. Eggja er ekki að vænta frá framleiðandanum aftur fyrr en fyrir liggja betri niðurstöður úr nýjum sýnum.

Díoxín er þrávirkt lífrænt mengunarefni, sem er sérstakt áhyggjuefni vegna áhrifa á umhverfi og heilsu almennings. Þó það hafi ekki áhrif á heilsuna samstundis getur díoxín valdið vanda ef það berst í líkamann í einhverju magni yfir langt tímabil. Það safnast fyrir í líkamsfitu og hverfur þaðan afar hægt.

Þessi díoxínmengun er rakin til mengunar úr jarðvegi vegna eldsvoða í vor, þegar frystihúsið í Hrísey brann. Hænur Landnámseggja hafa nú verið inni við frá miðjum október og er von fyrirtækisins, að gildi sýna sem tekin voru 26. nóvember reynist lægri, en þeirra niðustöðu er ekki að vænta fyrr en í þar næstu viku.

Viðskiptavinir sem keypt hafa egg frá Landnámseggjum eru beðnir um að neyta þeirra ekki og skila þeim til verslunarinnar, þar sem hún var keypt gegn fullri endurgreiðslu. Landnámsegg hafa fengist í Fjarðarkaupum, Melabúðinni, Versluninni Rangá, Matarbúðinni Hafnarfirði, B. Jensen á Akureyri og versluninni Hrísey.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert