Nagladekkin valda mestu um svifrykið

Svifrykið er öllum til ama.
Svifrykið er öllum til ama. Haraldur Jónasson/Hari

Rannsókn á svifryki á höfuðborgarsvæðinu leiðir í ljós að þar hafi nagladekk mest að segja af þeim þáttum, sem hafa má áhrif á. Gatnaþvottur virðist hins vegar vera óskilvirk lausn á vandanum.

Höfuðborgarbúar hafa ekki farið varhluta af svifryki undanfarna daga, en á því ber sérstaklega í köldu og stilltu veðri líkt og verið hefur, þó nú sé það fokið út í veður og vind. Vegagerðin bendir á að samkvæmt rannsóknarskýrslu um losun svifryks frá gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu, sem styrkt var af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar, vegi nagladekkjanotkun mjög þungt við myndun svifryksins.

Í rannsókninni var notast við NORTRIP-líkanið til að spá fyrir um svifryk vegna bílaumferðar og fá vísbendingar um hvað þurfi að gera til að sporna við því. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er sú að verulega þurfi að draga úr nagladekkjanotkun en næmnigreining gefur til kynna að nagladekkjanotkun sé lang veigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu.

Skýrslan var unnin af Brian C. Barr, meistaranemanda við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, en hann tók saman gögn um veðurfar, magn og samsetningu umferðar, og ástand götuyfirborðs við Kauptún í Garðabæ á tímabilinu október 2017 til apríl 2018. NORTRIP líkanið tímasetti vel „gráa daga“ þegar svifryk fór yfir heilsuverndarmörk, en þó var svifrykið almennt séð ofmetið í niðurstöðum líkansins og því þarf að túlka þær sem leiðbeinandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í  dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina