Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar andlát ungabarns sem lést á vistheimili á vegum barnaverndar Reykjavíkur. Ekki er þó talið að andlátið hafi átt sér stað með saknæmum hætti.
Mannlíf greindi fyrst frá málinu, en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu nú eftir hádegi þar sem fram kemur að ekki sé talið að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða.
Í frétt Mannlíf segir að beðið sé krufningar erlendis frá, en að andlátið hafi átt sér stað í meðferð í foreldrafærni fyrir um tveimur mánuðum. Foreldrar hafi þar verið í gæsluíbúð undir sérstöku eftirliti barnaverndar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tekur fram að hún ætli ekki að tjá sig nánar um málið.