Rúmlega 1.200 bera enn ábyrgð

Ríflega 29 þúsund ábyrgðir ábyrgðamanna féllu niður við gildistöku laga …
Ríflega 29 þúsund ábyrgðir ábyrgðamanna féllu niður við gildistöku laga um Menntasjóð námsmanna. Ernir Eyjólfsson

Rúmlega 29 þúsund ábyrgðir ábyrgðamanna á námslánum sem tekin voru fyrir mitt ár 2009 voru felldar niður í kjölfar gildistöku laga um Menntasjóð námsmanna í sumar. Eftir stóðu þó 1.211 einstaklingar sem enn sem eru í ábyrgðum fyrir lántakendur. Helgast það af því að lántakendur voru ekki í skilum þegar lögin tóku gildi. Ábyrgðir á lánum þess hóps sem var í vanskilum þegar lögin tóku gildi munu ekki falla niður þótt skuldarar komi lánum sínum í skil. 

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is kemur fram að engin þessara vanskilamála hafi verið send til Málskotsnefndar um niðurfellingu ábyrgða á námslánum í kjölfar laganna. „En þau mál sem komið hafa á borð stjórnar varðandi þetta eftir gildistöku laganna hafa verið afgreidd á grundvelli laganna sem eru skýr hvað þetta varðar, þ.e. ef lán voru í skilum við gildistöku þeirra þá falla ábyrgðir á námslánum niður en ekki séu lánin í vanskilum,“ segir í svarinu.

Með vanskilum þá er miðað við að lánin séu komin í löginnheimtu. 

Vilji löggjafans 

Að sögn Hrafnhildar Ástu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Menntastjóðs námsmanna, er litið svo að lán hafi farið í vanskil þegar 67 dagar voru frá eindaga. Á covid-tímum var þessi tími lengdur í 97 daga. Þess ber að geta að ábyrgðamanna hefur ekki verið krafist á námslán frá því árið 2009 þegar fyrirkomulaginu var breytt. Var þessi hluti laga um Menntasjóð sem töku gildi í sumar því afturvirkur og náði til ábyrgða á lánum sem tekin voru fyrir mitt ár 2009. 

Af hverju falla ekki niður ábyrgð þegar lántaki hefur komið málum sínum í skil? 

Það er vilji löggjafans. En ef að fólk kemur lánum sínum í skil, þá reynir ekkert á ábyrgðamenn,“ segir Hrafnhildur. 

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir.
Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Að sögn hennar hafði lang stærsti hluti þeirra lána sem ekki voru felldar niður ábyrgðir hjá við gildistöku laganna, verið í vanskilum í lengri tíma og komin í löginnheimtu. „Þeir sem voru í samningaviðræðum á þeim tíma þegar lögin gengu í gegn, fengu að koma lánum sínum í skil þannig að ábyrgðir féllu niður,“ segir Hrafnhildur. 

Hún segist ekki hafa upplýsingar um það hvort einhver af þessum 1.211 manna hópi hafi komið lánum sínum í skil síðan lögin tóku gildi. 

Vísbending um aukin vanskil 

Að sögn hennar er alltaf ákveðinn hópur lántakenda sem ekki stendur í skilum á námslánum. Er hann jafnan um 2-4%. 

Um mitt ár 2009 var hætt að krefjast ábyrgða á námslánum. Að sögn Hrafnhildar eru vísbendingar um það að aukið hlutfall lána sem tekin voru eftir þann tíma séu í vanskilum. „Það eru vísbendingar komnar fram um það að fleiri séu í vanskilum eftir að hætt var að krefjast ábyrgðamanna árið 2009,“ segir Hrafnhildur. 

mbl.is