Staðprófum haldið til streitu

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Við förum í einu og öllu eftir fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og sóttvarnalæknis,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við mbl.is. Thor Aspelund, pró­fess­or í líf­töl­fræði við Há­skóla Íslands, kallaði eftir því í gær að staðpróf í skólanum yrðu endurmetin vegna fjölda kórónuveirusmita undanfarna daga.

Alls greindust 20 kórónuveirusmit innanlands í gær og voru ellefu þeirra ekki í sóttkví við greiningu. Töluvert hefur verið af staðprófum í Háskóla Íslands á undanförnum vikum og mánuðum.

Jón Atli segir að staðpróf í HÍ hafi verið útfærð eftir reglugerð heilbrigðisyfirvalda og staðan verði áfram eins meðan sú reglugerð er í gildi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilar heilbrigðisráðherra minnisblaði vegna áframhaldandi sóttvarnaaðgerða um helgina en ljóst er að lítið verður um tilslakanir vegna fjölda smita síðustu daga.

Jón Atli segir að skólayfirvöld myndu uppfylla þær kröfur sem til þeirra væru gerðar ef fram kæmi í nýrri reglugerð að ekki mætti halda staðpróf. Vandað hafi verið til sóttvarna í skólanum og prófin sem þar hafi verið haldin gengið vel. 

„Við höfum ekki forsendur til að halda að það muni ekki ganga vel áfram. Að sjálfsögðu ef það verða breytingar á reglugerðum sóttvarnalæknis og heilbrigðisyfirvalda munum við laga okkur að því.“

Stúdentaráð Háskóla Íslands sendi frá sér yfirlýsingu um miðjan mánuðinn þar sem sagt var að ekki væri „boðlegt að neyða nem­end­ur til að taka staðpróf og bjóða ekki upp á aðrar lausn­ir“.

Jón Atli segir að reynt hafi verið að koma til móts við áhyggjur nemenda. 

„Ef nemendur eru í áhættuhópum þá komum við til móts við það með því að bjóða þeim upp á sérrými. Við höfum líka reynt að dreifa prófunum víða um háskólasvæðið. Við reynum líka að tryggja að það sé ekki hópamyndun fyrir próf, þannig að nemendur geti farið strax í stofur um leið og þeir komi í prófin. Við höfum brugðist við þessu eins vel og við getum. Við tökum þetta mjög alvarlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert