„Alvarlegar blikur á lofti“

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Forstjóri Landspítala segir alvarlegar blikur á lofti hvað varðar faraldur kórónuveirunnar hérlendis. Hann hvetur fólk til að „huga sérstaklega vel að sóttvörnum í sínu nærumhverfi og ganga löturhægt um gleðinnar dyr“, í pistli sem birtist á vef Landspítala. 

21 kórónuveirusmit greindist innanlands í gær, föstudag, og 20 smit á fimmtudag. Dagana þar á undan höfðu ívið færri smit greinst innanlands. 

„Það hefur verið mikið álag á spítalanum vegna Covid-19-faraldursins og þarf ekki að tíunda það fyrir ykkur. Í vikunni sáum við okkur fært að færa spítalann af hættustigi niður á óvissustig, þar sem samfélagslegum smitum fór fækkandi og dró úr álaginu á spítalanum,“ skrifar Páll Matthíasson í pistli sínum. 

„Við vonum svo sannarlega að sú staða haldist inn í aðventuna og að samtakamáttur landsmanna tryggi úthald þar til bóluefni getur hjálpað okkur í baráttunni við veiruna. Það eru þó alvarlegar blikur á lofti og ég vil eindregið hvetja alla til að huga sérstaklega vel að sóttvörnum í sínu nærumhverfi og ganga löturhægt um gleðinnar dyr.“

Þar deildi hann einnig myndskeiði af starfsfólki á A6, lungnadeild, sem var umbreytt í Covid-deild en sinnir nú á ný sínu reglulega hlutverki.

„Hér slær starfsfólk á létta strengi og sýnir aðdáunarverða takta í því eins og öðru. Eins og sést hérna fyrir neðan er þetta er áskorun á aðrar deildir og vinnustaði í heilbrigðisþjónustu!“ skrifar Páll og lýkur pistlinum á eftirfarandi skilaboðum:

„Nú ríður á að þetta sé nú ekki bara stund milli stríða! Góða helgi – ferðist innanhúss!“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert