Aðsókn í útrétti minni en í fyrstu bylgju

Bæði Sumac og Matarkjallarinn byrjuðu að senda mat heim í …
Bæði Sumac og Matarkjallarinn byrjuðu að senda mat heim í haust.

Sóttvarnareglur og fjöldatakmarkanir hafa verið mörgum veitingahúsum Þrándur í Götu, en sum þeirra hafa þess vegna tekið upp á því að bjóða upp á svokölluð „take-away“ tilboð sem útleggjast á íslensku sem útréttatilboð.

Þráinn Freyr Vigfússon, yfirkokkur hjá Sumac á Laugavegi, segir að þótt heimsendur matur bæti ekki upp fyrir fyrri umferð hafi slík starfsemi hjálpað til við að halda staðnum á floti. Þráinn segir að á góðu laugardagskvöldi borði um 100 manns mat frá Sumac heima hjá sér, en að aðsóknin hafi dregist saman frá því í fyrstu bylgju.

Þráinn Freyr Vigfússon yfirkokkur á Sumac.
Þráinn Freyr Vigfússon yfirkokkur á Sumac. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég myndi segja að þetta hafi dregist saman um svona 30% síðan í fyrstu bylgjunni,“ segir Þráinn.

Sumac bauð ekki upp á útrétti áður en kórónuveiran skaut upp kollinum og því þurfti veitingahúsið að aðlagast hratt. Verklag í eldhúsinu hafi breyst töluvert, þar sem allur matur þarf að vera tilbúinn á sama tíma, ólíkt því sem gengur og gerist þegar gestir borða á veitingahúsum.

„Þetta er góð viðbót við það sem var,“ segir Þráinn. „Allir eru að reyna að vinna þetta eins vel og hægt er.“

Aðsókn í take-away mat hefur minnkað síðan í haust, en …
Aðsókn í take-away mat hefur minnkað síðan í haust, en slík þjónusta er nú mikilvægur hluti af starfsemi margra veitingahúsa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lágmarkar mínusinn

Matarkjallarinn er annar veitingastaður sem byrjaði með útrétti þegar sóttvarnareglur tóku gildi í vor. „Það er búin að vera ágætis aðsókn í þetta, og það er mest að gera um helgar,“ segir Valtýr Bergmann, einn eigenda Matarkjallarans.

Líkt og Þráinn segir Valtýr að aðsóknin hafi minnkað frá því í fyrstu bylgju. Um helgar panti yfirleitt meira en 70 manns mat heim, en á virkum dögum sé það oft á milli 40 og 50.

„Þetta lágmarkar mínusinn,“ segir Valtýr. „Það er ekki víst að mörg fyrirtæki muni lifa þetta af en þau fyrirtæki sem stóðu ágætlega fyrir munu eflaust komast í gegnum þetta.“

Hann segist þó sjá mikinn mun í viðmóti þeirra sem komi og borði í sal. „Núna er fólk meðvitaðra þegar það kemur hingað inn. Það er með grímu og spritt. Sú hegðun hefur breyst.“

mbl.is