Gagnrýnir meðferð eineltismálsins

Málið hefur ekki verið tekið fyrir í skólanefnd grunnskóla í …
Málið hefur ekki verið tekið fyrir í skólanefnd grunnskóla í Garðabæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sara Dögg Svanhildardóttir, oddviti Garðabæjarlistans, gagnrýnir að eineltismálið í Garðaskóla sem fjallað hefur verið um í fréttum hafi aldrei komið inn á borð skólanefndar í Garðabæ, en nefndin er lögum samkvæmt eftirlitsaðili með skólastarfi. 

Í kvöldfréttum Rúv í gær var greint frá því að stúlka sem áður stundaði nám við Garðaskóla en varð þar fyrir einelti sé nú í heimakennslu og taki engan þátt í félagslífi. Viðbrögð Garðaskóla hafa verið gagnrýnd af fleirum, en fagráð eineltismála og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa gert alvarlegar athugasemdir. 

„Málið hefur verið í vinnslu um langt skeið og komið á mjög alvarlegan stað áður en um það er upplýst í skólanefnd,“ segir Sara Dögg. Sara Dögg er fulltrúi Garðabæjarlistans í skólanefnd og er í minnihluta.

„Þar sem erindinu hefur verið vísað frá fagráði eineltismála yfir til mennta- og menningarmálaráðuneytisins og ráðuneytið komið með niðurstöðu af sinni hálfu um brot á grunnskólalögum þá finnst mér mjög alvarlegt að málið hafi ekki átt erindi inn á borð skólanefndar,“ segir Sara Dögg.

Sara Dögg hefur fengið öll gögn í málinu og óskaði eftir fundi með skólanefnd en fundurinn er á dagskrá síðdegis á morgun. Hún segir að nefndarmenn viti hvað málið snúist um, þau hafi vitaskuld fylgst með því í fréttum en á morgun fái þau skýringu frá Garðabæ á því af hverju málið hafi ekki komið inn á borð skólanefndar fyrr en óskað var eftir því.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar, sagði í samtali við mbl.is í dag að málið væri á viðkvæmu stigi en væri í vinnslu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert