Vilja að tímabundin fjölgun listamannalauna verði varanleg

Stærsti flokkur listamannalauna eru laun til rithöfunda, en þeir fá …
Stærsti flokkur listamannalauna eru laun til rithöfunda, en þeir fá um 30% heildarmánaðargreiðsla úr sjóðinum. Mánaðargreiðslur til myndlistamanna er næst stærsti flokkurinn með um 25%. mbl.is/​Hari

Félag leikstjóra á Íslandi leggur til að tímabundin fjölgun mánaðalauna í launasjóðum listamanna og hönnuða, sem ráðherra hefur lagt til að verði áfram tímabundið aukinn á næsta ári vegna kórónuveirufaraldursins, verði varanleg. Þá leggur félagið til að mánaðarlaununum verði fjölgað áfram á komandi árum um tæplega 26% yfir fimm ára tímabil.

Þetta kemur fram í umsögn félagsins við frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um tímabundna fjölgun listamannalauna vegna ástandsins.

Á þessu ári átti að greiða út 1.600 mánaðarlaun til listamanna. Í apríl var ákveðið að bæta við 600 mánaðarlaunum þannig að heildarfjöldinn varð 2.200, en það nemur um 37,5% fjölgun. Með frumvarpi Lilju er lagt til að fjöldinn verði 2.150 á næsta ári.

Í umsögn Félags leikstjóra á Íslandi segir að þessi tímabundna ráðstöfun leysi „ekki þann vanda sem staðið er frammi fyrir við árlega úthlutun listamannalauna.“ Því sé fullt tilefni til að breytingin verði varanleg, en félagið bendir á að fjöldi mánaðarlauna listamanna hafi staðið í stað frá árinu 2012, ef frá er talin aukaúthlutun vegna faraldursins.

Leggur félagið til að mánaðarlaunum listamanna verði svo fjölgað upp í 2.700 yfir næstu fimm ár og segir að slík fjölgun sé sambærileg við þá hækkun sem átti sér stað á árunum 2009 til 2012 þegar þeim var fjölgað um 400. „Það væri að okkar mati hófleg aðgerð,“ segir í umsögninni. Segir þar jafnframt að árlega útskrifist um 100 listamenn frá Listaháskóla Íslands.

Að lokum segir í umsögninni að fullt tilefni sé til að ræða upphæð mánaðarlaunanna, en þær eru í dag 407.413 krónur í verktakagreiðslu og er ætlað að það dekki 67% starfshlutfall.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert