Afgangur úrbótasjóðs nýttur í viðburðahald

Gaukurinn er meðal þeirra tónleikastaða sem hlotið hafa styrk úr …
Gaukurinn er meðal þeirra tónleikastaða sem hlotið hafa styrk úr úrbótasjóði Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Árni Torfason

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar hélt aukafund í dag þar sem samþykkt var að verja afgangi úrbótasjóðs í viðburðahald í Reykjavík á aðventunni.

Ekki tókst að úthluta rúmlega þremur og hálfri milljón króna úr sjóðnum og lagði faghópur sjóðsins til að fjármagninu yrði varið í sérstakan viðspyrnusjóð tónleikastaða til að styðja við viðburðahald í Reykjavík á aðventunni í formi streymis. 

„Þannig fá tónleikastaðirnir verkefni og tónlistarfólk laun á afar krefjandi tímum. Skilyrði fyrir þátttöku í verkefninu er að um sé að ræða staði sem hafa í gegnum tíðina sinnt öflugu tónleikahaldi og skilgreinast þannig sem mikilvægir tónleikastaðir í borginni,“ segir í minnisblaði sem lagt var fyrir fundinn, unnið af verkefnastjóra Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur.

Lögð er áhersla á hraða afgreiðslu umsókna og stefnt verður að því að hefja dagskrá tónleikastaðanna eigi síðar en 7. desember. Ferlið á því í heild að taka viku.

Fallist var á beiðnir um breytingar á styrkjum 

Á sama fundi voru afgreiddar tvær beiðnir um breytingar á styrkjum. Eigendur KEX hostels sóttu um að fá að færa styrk sem þeir höfðu áður fengið úthlutað af kennitölu Sæmundar í sparifötunum sem var rekstrarfélag veitingarstaðarins yfir á fasteignafélagið S28 ehf. 

Rekstraraðilar Gauksins báðu um að fá að nýta hluta styrkupphæðarinnar sem þeir höfðu áður fengið úthlutað til kaupa á magnara í stað hjólastólalyftu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert